Björn Birgisson skrifaði:
Samfélag
Það er það sem ríkið er að gera gagnvart Grindvíkingum.
95% gjald fyrir húseignir er í flestum tilvikum undir markaðsvirði eins og það var orðið fyrir hamfarirnar 10. nóvember 2023.
En uppkaupin eru bjarghringur fyrir marga.
Það er gott að geta hjálpað fólki og öll hjálp er vel þegin og fyrir hana ber að þakka.
**********
Síðan hefur það fólk farið í tímabundna leigu, mest á suðvesturhorni landsins á meðan hugað hefur verið að kaupum á húsnæði.
Ríkið kom fyrst inn með 75% leigustyrk, en hækkaði hann svo í 90% og gildir sú ákvörðun út ágústmánuð að óbreyttu.
Það er gott að geta hjálpað fólki og öll hjálp er vel þegin og fyrir hana ber að þakka.
**********
Fasteignaverð hefur snarhækkað vegna aukinnar eftirspurnar og Grindvíkingar eiga því nánast enga möguleika á að fá sambærilegar eignir fyrir uppkaupa peninginn frá ríkinu.
Þá kemur aukin skuldsetning til sögunnar, okurlán, því annað er ekki í boði og svo er gripið til sparifjár þar sem það er til.
Endalaus kostnaður fylgir hinni vonlausu stöðu sem svo margir eru óvænt komnir í.
**********
Svo kemur að því að kaupsamningar eru gerðir og Grindvíkingar sjá í hillingum að vera að eignast nýtt heimili eftir tæplega hálfs árs hrakninga og jafnvel að hafa flutt búferlum margsinnis á þeim tíma.
Þá kemur hin hjálpandi hönd til sögunnar að nýju.
En ekki til að hjálpa.
Aldeilis ekki!
Þvert á móti.
Ríkið heimtar að flóttafólkið greiði 0,8% af fasteignamati eignanna í stimpilgjald ef það vilji verða löglegir eigendur að nýju híbýlunum!
Hvað þýðir það?
- 480 þúsund af eign sem metin er á 60 milljónir.
- 520 þúsund af eign sem metin er á 65 milljónir.
- 560 þúsund af eign sem metin er á 70 milljónir.
Þetta eru engir smáaurar fyrir venjulegt launafólk.
Hvað varð um hina hjálpandi hönd?
Innheimta á þessum skatti – fyrir fáránlega litla vinnu – er ekkert annað en viðbjóðsleg eftir allt sem á undan er gengið.
Varla þarf Þórkatla að borga stimpilgjöld vegna uppkaupanna!
Það eigum við Grindvíkingar ekki að gera heldur.
Ef einhver vitglóra og töggur eru í okkar kjörnu fulltrúum og í ríkisstjórninni þá verða Grindvíkingar undanþegnir þessu stimpilgjaldi, enda er það ekkert annað en blaut tuska framan í fólk sem ekkert hefur til saka unnið, þvert á móti verið gjöfulir og góðir þegnar þessa lands.