- Advertisement -

Að reisa sjálfum sér minnisvarða

Sigurjón Þórðarson:

…virðist vera sem Guðlaugur Þór sé að hlaupa eftir tilmælum Samtaka atvinnulífsins sem hafa m.a. haft horn í síðu heilbrigðiseftirlitana vegna olíumengunarmála m.a. á Hofsósi og víðar.

Guðlaugur Þór umhverfisráðherra hefur blásið til sameininga stofnanna, m.a. boðað að slá saman 10 ríkisstofnunum og gera úr þeim 3 stórar stofnanir.

Ég hef fylgst með æfingum ráðherra í kringum þá sameiningu og það verður að segjast eins og er að þar fylgir ráðherra ekki leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar, sem byggja m.a. á reynslu hér heima af því sem miður hefur farið við fyrri sameiningar og vísindagreinum á sviði stjórnsýslufræða.

Markmið ofangreindrar sameiningar er afar óskýr og undirbúningi verulega áfátt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú er það svo að ég er alls ekki á móti…

Nú ber svo við að ráðherra hefur boðað það að ríkisvæða þá stofnun sem ég vinn hjá og færa verkefnin í heilu lagi annars vegar inn í óstofnaða stofnun á sviði umhverfismála og hins vegar inn í MAST. Eins og í dæminu hér að ofan þá er ekki farið eftir vandaðri leiðsögn heldur virðist vera sem Guðlaugur Þór sé að hlaupa eftir tilmælum Samtaka atvinnulífsins sem hafa m.a. haft horn í síðu heilbrigðiseftirlitana vegna olíumengunarmála m.a. á Hofsósi og víðar.

Nú er það svo að ég er alls ekki á móti rækilegri endurskoðun á starfsemi heilbrigðiseftirlitsins og hefði sjálfur talið að það væri mikill akkur í því sérstaklega í dreifbýlinu, að koma starfseminni inn í sveitarfélagastofnun sem hefði m.a. einnig með skipulags-, brunavarnir og byggingarmál að gera.

Aðferðarfræði Guðlaugs Þórs við að ríkisvæða heilbrigðiseftirlitin er stórundarleg, þar sem samráð við þá sem við málaflokkinn starfa hefur verið til málamynda og skýrslan sem liggur til grundvallar niðurstöðunni hefur verið haldið leyndri, en hún hefur legið á borði ráðherra í nokkra mánuði.

Það er borðleggjandi þessi vinnubrögð eru ekki til þess að vekja traust eða áhuga þeirra sérfræðinga sem vinna í málaflokknum, til að taka þátt í skipulagsbreytingum.

Hefur ráðherra áhuga á verkefnum ráðuneytisins?

Fyrir okkur sem störfum í eftirliti með mengunar- og hollustumálum, þá hefur verið kallað eftir skýrari leiðbeiningum á ýmsum sviðum og sömuleiðis eftir að sníða agnúa af gangverki stjórnsýslunnar, m.a. breytingum á olíureglugerð en núverandi reglugerð er gulltryggð ávísun á frekari olíuleka, gefa út reglugerð um fráveitur sem hefur legið tilbúin á borði ráðherra í nokkur ár og lagfæra gallað skráningarreglugerð sem eykur flækustigið og gerir m.a. hjálparsveitum erfitt fyrir að afla sér leyfa til að halda áramótabrennur ofl.

Mögulega mun ráðherra reisa sér minnisvarða í formi stórrar og glæsilegrar umfangsmikillar ríkisstofnunar í Reykjavík.

Vandséð er að minnisvarðinn góði verði samt lítið annað en borðleggjandi skólabókardæmi um hvernig ekki eigi ekki að gera hlutina.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: