Fótgönguliðarnir í B35, Borgartúni 35, og í Hádegismóum keppast hver við annan að pissa upp í vindinn.
Í leiðara dagsins er gagnslausri baráttutækni beitt. Innantómri könnun um að forstjórar nokkurra fyrirtækja ætli að fækka starfsfólki verði samið um kaup og kjör á annan veg en þeir vilja. Svo ekki sé talað um að laun dugi fyrir framfærslu. Slíkt segja fótgönguliðarnir ógn við þeirra eigin efnahagslega framtíð.
„Þessari könnun, og fleiri vísbendingum í sömu átt, er fjarri því tekið af þeirri alvöru sem ástæða er til,“ segir leiðara dagsins. Eðlilega, svo ekki sé meira sagt. Hér er mikill hagvöxtur og svo verður víst áfram.
Tónninn er þessi:
„Náist skynsamlegir samningar fljótlega er full ástæða til að ætla að hér geti haldist góður hagvöxtur og öflugt atvinnulíf með batnandi lífskjörum almennings. Skelli forysta verkalýðshreyfingarinnar skollaeyrum við varnaðarorðum, eins og hún hefur gert hingað til, er hætt við að niðurstöður könnunar Gallup verði að veruleika. Frá því verður að forða.“
Þetta, annars ágæta fólk, verður að finna sér annan takt. Það tekur enginn mark á þessum fullyrðingum, hvorki að fram undan séu fjölda uppsagnir í miklum hagvexti eða að hóflegar kröfur láglaunafólks séu ógn við framtíð þjóðarinnar.
Þau fyrirtæki sem ekki geta borgað laun sem duga fólki til framfærslu er einskis virði.
-sme