Sigurjón M. Egilsson:
Formaður Sjálfstæðisflokksins er á lokametrunum. Hann er bæði önugur og blátt áfram leiðinlegur þegar hann neyðist til að mæta til þings.
Enn syrtir í álinn. Allar þær áætlanir og öll sú fyrirhyggja sem fjöldi fólks hefur gert á síðustu árum er nú fyrir bí. Ríkisstjórn Íslands hefur misst tökin á stjórn efnahagsmála með skelfilegum afleiðingum fyrir þorra fólks. En miklum ávinningi fyrir fá. Kannski var það ætlunin.
Áður en Ásgeir Jónsson í Seðlabankanum kynnti risavaxtahækkun dagsins fagnaði efnahagsmálaráðherra árangri annarra vaxtahækkana. Búast má við að ríkisstjórnin fari í trylltan hringdans á næsta fundi sínum. Bara að þau fari sér ekki að voða.
Málið er grafalvarlegt. Fjöldi fjölskyldna er á vonarvöl og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Börn verði rifin úr sínu umhverfi, úr skólunum og vita ekki hvað tekur við. Fjölskyldur missa íbúðirnar og fara bara eitthvað. Hvort sem þau hrökklast að heiman. Sama hvort þau eru leigjendur eða keyptu íbúð í góðri trú.
Efnahagsmálaráðherrann fullyrti, við síðustu kosningar, að Ísland væri orðið lágvaxtaland. Þess vegna keypti margt fólk íbúðir yfir sig og sína. Forsendurnar hafa gjörbreyst. Annað hvort vissi ráðherrann ekki betur þegar hann atti fólki á foraðið eða hann sá þetta hryllilega ástand fyrir. Og leit á fólkið sem bráð.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er á lokametrunum. Hann er bæði önugur og blátt áfram leiðinlegur þegar hann neyðist til að mæta til þings. Hann er búinn að draga hina flokkana tvo, Vinstri græn og Framsókn með sér, svo þau eiga enga undankomuleið. Verða að spila með svo lengi sem efnahagsmálaráðherrann fyrirskipar.
Fórnarlömb þessa ástands skipta þúsundum. Fjölskyldur eru að fara á vergang. Ekki má gera lítið úr vanda þeirra barna sem verða að skipta um umhverfi, skipta um skóla. Ráðherrann þekkir ekki hvað það er er að skipta sífellt um skóla. Það getur verið ömurlegt. Það veit ég, fór í fimm skóla til að klára gagnfræðapróf á sínum tíma. Ég óska engum að fara þá leið.
Burt með þetta fólk.