- Advertisement -

Að lifa frá degi til dags

Ég þoli ekki að koma of seint.

Fólkið í Eflingu, texti og mynd: Alda Lóa:

„Ég er ættuð frá Fljótsdal fyrir austan. Ég missti pabba þegar ég var tveggja ára, yngst af sex systkinum og mamma reyndi að halda áfram búskapnum sem var erfitt í þá daga. Vinnan var yfirþyrmandi fyrir systkini mín og mömmu sem vakti í heilan mánuð og það endaði með því að við fluttum til Reykjavíkur og mamma fór að vinna í fiski.

Ég var 15 ára þegar ég fór að vinna í sjoppu í Reykjavík og 18 ára komin í fisk austur á Höfn en þangað fluttum við mamma og systir mín. Ég var svo samviskusamur vinnukraftur, aldrei veik, mætti alltaf, líka um miðjar nætur í handflökun, vann eins og skepna án þess að fá almennileg laun fyrir það. Einu sinni bað ég um frí, og verkstjórinn sagði nei! Þá var mér nóg boðið og ég barði í borðið, og ég fékk frí. Í fiski var fólk sem drakk á milli vakta og mætti illa en þá var hægt að kalla á mig. Uppeldið og samviskusemin leyfa mér ekki annað og ég þoli ekki að koma of seint, samt finnst mér ég ekki hafa fengið neina umbun fyrir að standa mig vel.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég vann líka á leikskólanum á Höfn í mörg ár og ég eignaðist fjölskylduna mína á Höfn, manninn minn, sem var ekkjumaður með þrjú börn. Það var stórt verkefni, en að vandlega hugsuðu máli tókst ég á við það. Yngri börnin tvö höfðu verið hjá mér á leikskólanum og ég þekkti þau vel, sérstaklega stelpuna.

Við fluttum í Ölfusið þegar maðurinn minn fékk vinnu hjá Eimskip en þær tekjur dugðu ekki þannig að ég réð mig hingað. Ég var sem betur fer komin á þennan vinnustað, hjá Náttúrulækningastofnun, þegar í ljós kom genagalli hjá börnunum mínum og það þurfti að taka úr þeim ristilinn, öllum þrem sem var mikið áfall fyrir fjölskylduna. En hérna á vinnustaðnum var skilningur á aðstæðum og ég fékk frí þegar ég þurfti á því að halda. Ég vil ekki hugsa það til enda ef við hefðum búið enn þá fyrir austan, þegar þetta skall á. Kerfið er svo þungt, þá hefði það verið miklu meiri kostnaður.

Ég er búin að vinna hjá Náttúrulækningastofnun í tíu ár. Byrjaði í sundlauginni, kom við í ræstingunum, leirnum og síðast hingað í eldhúsið og geng í öll störf þarf, sem er mjög gott og ég verð ekki leið á vinnunni. 
Eftir allt þetta strit erum við með skuldir á bakinu og eignalaus. Ég leigi hjá vinnuveitenda, svo lánsöm að fá það annars gæti ég ekki leyft mér neitt. Það var fyrst eftir að börnin fluttu að heiman að við gátum leyft okkur eitthvað og þegar ég varð fimmtug þá nurluðum við saman fyrir ferð og ég fór í fyrsta sinn til útlanda,

Ég fer varla að breyta til á mínum aldri, ég er orðin 54 ára og það er ekki auðvelt að skipta um starf. Ég hefði gjarnan viljað vinna við garðyrkju, ég kláraði Garðyrkjuskólann í Hveragerði. En það gengur bara ekki upp, sérstaklega eftir að bakið skaddaðist. Ég þarf að halda mér við, og stunda líkamsrækt. Þetta er dálítið að lifa frá degi til dags, ekkert öruggt og ég má hvorki við því að missa heilsu né vinnu.

Þegar ég var í fiski, þá var ég ritari hjá verkalýðsfélaginu Vökli og fengin í stjórn. Ég hafði gott af því eftir að hafa verið lengi trúnaðarmaður í frystihúsinu. Í mörg ár hefur mér fundist verkalýðsfélögin ekki vinna neitt fyrir okkur. Ég er mest bitur út í það hvernig félögin leggja sig fram við að koma á móts við vinnuveitendur í staðinn fyrir að tala við okkur, og spyrja um þarfir okkar verkafólksins? Þannig hefur það virkað á mig, að það sé alltaf verið að vinna út frá hagsmunum vinnuveitandans. Verkalýðsfélagið hefur stækkað svo mikið og fyrir vikið orðið ópersónulegt, það sárvantar mannlegu hliðina, eins og þeir segja í læknisfræðinni: „þeir gleymdu í fræðunum hvernig maður á að tala við fólk.“

Svala Axelsdóttir vinnur í eldhúsinu hjá NFLÍ í Hveragerði og er félagi í Eflingu. #fólkiðíeflingu Sjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: