- Advertisement -

Að lifa á hafragraut og hrísgrjónum

Ólíkustu þingmennirnir, Guðmundur Ingi og Bjarni Ben.

Trúlega er fátt ólíkara en reynsluheimur Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins, og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Þar ber himinn og haf á milli.

„Ekki er auðséð að staða þeirra hafi tekið breytingum í einhverjum grundvallaratriðum vegna heimsfaraldursins þó að við verðum að huga að öllum í þessu samfélagi og að ekki sé hægt að útiloka að neikvæð áhrif veirunnar snerti hvern og einn Íslending,“ sagði Bjarni þegar hann talaði um það fólk sem Guðmundur Ingi talar fyrir. Lakast setta fólkið.

„Þetta snýst um að við verðum að átta okkur á því að þeir sem eru búnir að lifa lengi á 221.000 kr. útborgað eru viðkvæmastir fyrir þessari veiru. Þetta er fólkið sem hefur ekki getað veitt sér almennilegan mat. Það vita allir að það er erfitt að lifa eingöngu á hrísgrjónum og hafragraut. Þetta fólk kaupir sér ekki lýsi, vítamín og annað sem það þarf nauðsynlega á að halda. Það er búið að sýna fram á að það er fyrirbyggjandi að taka inn lýsi, C-vítamín og D-vítamín. Þetta fólk hefur ekki efni á þessu. Það hefur rétt efni á að halda húsnæði og síðan fer það til hjálparstofnana eftir mat. Þetta er fólkið sem þarf á hjálp að halda og við eigum að hjálpa því alveg eins og öllum hinum. Þetta fólk er ekkert undanþegið atvinnuleysi, við verðum að hugsa sérstaklega um þennan hóp vegna þess að hann er viðkvæmastur,“ sagði Guðmundur Ingi.

Bjarni leyfði sér enn og aftur að efast um bága stöðu öryrkja. Hann hefur greinilega dundað sér við að setja inn forsendur á reiknivél Tryggingastofnunar. Bjarni sagði:

Hrísgrjón.

„Ef háttvirtur þingmaður fer inn á vefinn tr.is og slær inn forsendur um einstæðing með tvö börn sem hefur í kringum 35 ára aldurinn orðið öryrki og hefur engar aðrar tekjur en kannski 10.000 kr. frá lífeyrissjóði vegna örorkunnar teiknast upp sú mynd af stuðningi sem við ættum að vera að ræða hér. Sá stuðningur sem slíkur einstaklingur hefur sem hefur engar atvinnutekjur en er með tvö börn á heimili og býr einn og fær meðlag með börnunum er ekki mjög frábrugðinn stöðu þess fólks sem er nýbúið að semja um kjör sín á vinnumarkaði. Stuðningurinn er ekki síðri en gerist með það fólk sem við erum að grípa núna í hlutastarfaleiðinni. Hins vegar eru einstaklingar í almannatryggingakerfinu sem skrapa þar botninn og er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af. Heilt yfir gegnir almannatryggingakerfið okkar gríðarlega mikilvægu hlutverki.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: