- Advertisement -

Að læra af mistökunum

Katrín Oddsdóttir skrifaði:

Fyrir nokkrum árum þegar ég starfaði í lögmennsku stóð til að senda íranskan flóttamann sem var okkar skjólstæðingur til Grikklands. Rauði krossinn hafði þá lagst gegn þeirri endursendingu rétt eins og hann hefur gert nú.

Við mótmæltum harðlega en yfirvöld neituðu að hlusta og minn maður var sendur út í óvissuna þar sem hann hafði áður sætt ómannúðlegri meðferð fyrir það eitt að vera að flýja ofsóknir í heimalandi sínu. Aftur sætti hann slíkri meðferð við komuna til Grikklands.

Svo féll dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um það að ekki væri heimilt samkvæmt Mannréttindasáttmálanum að endursenda flóttafólk til Grikklands því þar væru aðstæður óboðlegar.

Við kröfðumst þess að maðurinn yrði sóttur og eftir marga mánuði tókst það. Seinna fékk hann loksins dvalarleyfi af mannúðarástæðum en hafði þá margoft endað inn á geðdeild í millitíðinni í mjög illvígri sjálfsvígshættu.

Að lokum fórum við á lögmannsstofunni Rétti í skaðabótamál gegn íslenska ríkinu fyrir hönd þessa manns vegna meðferðar íslenskra yfirvalda á honum. Ég flutti málið og vann það. Manninum voru meðal annars dæmdar bætur vegna þess að Ísland hafði með meðferð sinni á honum gerst brotlegt gegn reglu sem bannar ómannúðlega meðferð og pyndingar.

Ríkið áfrýjaði ekki einu sinni þessum dómi heldur greiddi honum möglulaust bæturnar. En ekki er að sjá að kerfið hafi lært af mistökunum.

Á morgun lítur út fyrir að það eigi að senda saklaus börn í sömu vegferð á þeim grundvelli einum að þau hafi fengið efnislega meðferð á Grikklandi óháð því hvernig aðstæður barna eru þar. Það er ekki það sama að fá alþjóðlega vernd sem flóttamaður á Grikklandi og að njóta mannlegrar reisnar og mannréttinda. Því miður.

Ég fullyrði að það að senda börn til Grikklands er mannréttindabrot!

Ég fullyrði líka að íslensk yfirvöld framkvæma ekki brottvísun barna til Grikklands í nafni meiri hluta þeirra borgara sem hér búa.

Grein Katrínar var skrifuð í gær.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: