Svarið var einfalt, ráðuneytið hafði ekki hugmynd um það. Það þýddi að ég þurfti að gramsa í gegnum þetta sjálfur.
Þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson skrifar fína grein sem birt er í Mogganum í dag. Þar fjallar hann aðkomu ríkisvaldsins að nýgerðum kjarasamningi.
„Þann 1. apríl síðastliðinn kom fram áskorun til stjórnvalda frá samningsaðilum á markaði þar sem var meðal annars sagt að aðkoma ríkisins að kjarasamningum þyrfti að vera umtalsverð. Þar var talað um verðtryggingu, vaxtalækkun og að létta skattbyrðinni af þeim tekjuminnstu. Það biðu því líklega margir spenntir eftir því að sjá hvernig ríkisstjórnin myndi bregðast við. Daginn eftir komu hugmyndir frá stjórnvöldum sem þau meta upp á um 100 milljarða á samningstímabilinu en á sama tíma litu hugmyndirnar mjög kunnuglega út, margar hverjar litu nákvæmlega eins út og búið var að gera ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.“
Björn Leví er þekktur fyrir að spyrja margs.
„Ég nýtti því tækifærið þegar félagsmálaráðuneytið kom á fund fjárlaganefndar að spyrja hvaða áhrif kjarasamningarnir hefðu á málefnasvið ráðuneytisins þar sem þar voru meðal annars tillögur um auknar barnabætur og fæðingarorlof. Svarið var einfalt, ráðuneytið hafði ekki hugmynd um það. Það þýddi að ég þurfti að gramsa í gegnum þetta sjálfur.“
Vantar eina blaðsíðu?
„Fyrsta vandamálið sem ég lenti í var að í kynningu stjórnarráðsins þá leggur ríkisstjórnin fram 45 tillögur til stuðnings lífskjarasamningunum. Í skjalinu þar sem farið er yfir tillögurnar er bara hægt að finna 38 tillögur. Það er eins og það vanti eina blaðsíðu í tillöguskjalið eða eitthvað. Næsta vandamál sem ég lenti í var að tölurnar sem eru notaðar í tillöguskjalinu eru ekki á sama sniði og í fjármálaáætluninni. Það þýðir að þær eru ekki samanburðarhæfar og ekki hægt að sjá hvort tillögurnar í fjármálaáætluninni og tillögurnar í lífskjarasamningunum séu í raun bara sömu tillögurnar eða hvort um einhverjar viðbætur sé að ræða. Ég hefði haldið, kannski í einfeldni minni, að það væri forgangsatriði að sýna það á tungumáli fjármálaáætlunarinnar hverjar breytingarnar eru, því ekki gerðu samningsaðilar kröfur um að aðkoma stjórnvalda væru þær tillögur sem þegar voru komnar fram í fjármálaáætlun.“
Það er ekkert annað. Þetta er í raun og veru mjög merkilegt, eða alvarlegt.
„Fyrir mér lítur þetta einmitt svona út, fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur út með ýmsum tillögum sem eiga að greiða fyrir kjarasamningum. Samningsaðilar komast að einhverju samkomulagi og senda áskorun til stjórnvalda um atriði sem munu skipta höfuðmáli í því hvort niðurstaða fáist. Ríkisstjórnin kemur svo og tilkynnir 100 milljarða pakka inn í þessa lífskjarasamninga. Það er augljóst að stór hluti þess pakka var þegar kominn fram. Það er einnig augljóst að samningsaðilar vildu meira. Einu atriðin sem ég finn og eru óljós loforð um vexti og verðtryggingu. Flest, ef ekki allt, annað hefur þegar komið fram í stefnu stjórnvalda. Það er svona eins og að gefa sama pakkann tvisvar. Snerist áskorun samningsaðila um það að gefa stjórnvöldum tækifæri til þess að gefa sama pakkann tvisvar?“