Að flytja eða deyja
- Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartar framtíðar, skrifar um ábyrgð fólks á fólki.
Umræðan „Það standa yfir þjóðflutningar í heiminum. Slíkt hefur gerst áður í mannkynssögunni. Ég ætla að veðja á að ástæða þjóðflutninga hafi aldrei verið tískubóla eða dillur í fólki. Ástæðurnar eru – og hafa verið – þær að ekki er lengur hægt að lifa í „uppruna“landinu og neyðin rekur fólk af stað í átt til sjálfsbjargar. Flytja eða deyja.
Í dag höfum við allt aðra yfirsýn yfir veröldina og fólkið í henni. Það ætti að vera kostur, ætti að auka skilning og greiða fyrir. Eða hvað? Drukknar mannúðin í yfirsýninni?
Enn sem komið er búum við Íslendingar við þann lúxus að fólk er að flýja hingað en ekki héðan. Það gæti allt saman breyst. Hvað ef askan úr Eyjafjallajökli hefði blásið í vestur frekar en suður?
Það fylgir því ábyrgð að tilheyra þeim hluta heimsins sem þjóðflutningarnir liggja til frekar en frá. Hvernig myndum við vilja sjá viðbrögð annarra landa ef staðan væri öfug?“
Þannig skrifaði Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartar framtíðar, á Facebook fyrir skömmu.