Að fara á hausinn á korteri
- Davíð sakar Ríkisútvarpið um falska könnun og segir lífsspursmál fyrir RÚV, „...að hafa tekjur snýttar út úr almenningi til að lifa daginn af.“
Oft hefur andað köldu frá ritstjóraskrifstofu Morgunblaðsins til Ríkisútvarpsins. Í nýjasta leiðaranum er höggið fastar en oftast.
„Hún var óneitanlega skrítin pantaða könnunin sem fjölmiðlar kynntu fyrir skömmu. Hún var um Ríkisútvarpið. Það lá í loftinu að smám saman er að renna upp fyrir þeim, sem með hrokafullri sveiflu hafa blásið á alla gagnrýni á þessa trénuðu ríkisstofnun að sífellt fleirum þykir minna til hennar koma. Reyndar var talið að þau fyrirtæki sem spyrja út úr skoðunum fólks láti ekki hafa sig í hvað sem er. En kannski bresta varnirnar þegar mikið er í húfi,“ segir þar og eru fullyrðingar þó rétt að byrja.
„Þannig var spurt hvort þjóðinni þætti rétt að einkavæða Ríkisútvarpið?! Heil 16% vildu það. Það er mjög merkilegt ef ekki stórundarlegt að svo margir svari slíkri spurningu játandi. Hver myndi kaupa Ríkisútvarpið ef einhver væri svo bilaður að vilja einkavæða það? Þetta er fyrirtæki sem þarf að borga 5.000 milljónir með á hverju einasta ári. Sá sem álpaðist til að kaupa það í einkavæðingu væri kominn á hausinn eftir kortér.“
Mogginn rekur nú útvarpsstöðvar. „Eða er verið að gefa í skyn að hægt sé að setja Ríkisútvarpið í einkavæðingu, og bjóða til sölu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og segja í auglýsingunni að í kaupunum fylgi sérstök heimild til að skattleggja Íslendinga um 5.000 milljónir á ári næstu öldina? Það væru þá 500 milljarðar í kaupbæti. Þetta er engin smávegis upphæð. Fyrir hana er hægt að leysa allan húsnæðisvanda ungs fólks, byggja ríkisspítala í hverjum fjórðungi og blúnduleggja hringveginn með fjórum akreinum og eiga þó afgang. Þegar „aðeins“ 16% svara því til að vilja „einkavæða“ Ríkisútvarpið er það talið til marks um það hve almenningur sé háður því. Og miklu meira sé að marka það en það að aðeins rétt rúmt 1% landsmanna hlusti á „RÚV“ eftir kl. 18.15!“
Davíð vitnar einnig í vin sinn og félaga, Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra, sem er þeirrar skoðunar að hningun Ríkisútvarpsins sé augljós.