Skrifaði þetta 15. ágúst. Svarið er komið.
Hún virðist eindregin staðfesta Sjálfstæðisflokksins, með aðstoð Viðreisnar, að gera mál Róberts Árna Hreiðarssonar pólitískt, flokkspólitískt. Öllum ráðum til þess er beitt.
Aðrir stjórnmálamenn eru óviljugir settir í þagnarbindindi. Í krafti lítils meirihluta er þess gætt að fólkið í landinu, sem kallar eftir svörum, fái ekkert að vita. Afstaða Brynjar Níelssonar og annarra kallar fram endalaust af spurningum. En hvers vegna gerir fólkið þetta? Hvað er það sem ekki þolir dagsljósið?
Mál Róberts Árna er ógeðfellt. Hreinn viðbjóður. Því er ekki hægt að skilja hvers vegna nefndarmenn ríkisstjórnarflokkanna vilja eigna sér málið. Vilja eiga kúkalyktina.
Oftar en heppilegt er, eru hagsmunir helsta afl stjórnmálanna. Hvað er það hér sem kallar á að fólk er tilbúið að ata sjálft sig auri? Hverra hagsmuna er verið að gæta? Hver skipar svo fyrir?
Allt þetta virkar sem verið sé að gæta þess að ekki fréttist hverjir ábekingar kynferðisglæpamannsins eru. Þeir menn sem kvittuðu upp á fyrir Róbert Árna verða að svara fyrir það sem þeir hafa gert.
Engu breytir þó Brynjar Níelsson segi aðra verri kynferðisglæpamenn og morðingja hafa fengið samskonar ívilnun. Það réttlætir ekki þögnina núna. Það kallar hins vegar á upplýsingar um þau mál líka. Því fyrr því betra.
Fólkið vill svör og fólkið fær svör.
Sigurjón M. Egilsson.