Að dunda sér við snjallsímann
Ég hef grun um að enginn þingmaður sjái nokkurn tilgang með þessum eldhúsdagsumræðum.
Jón Örn Marinósson skrifar:
Allt hefur sinn tíma. Sauðskinnsskór heyra nú sögunni til. Rímnakveðandi á kvöldvöku í baðstofunni heyrir nú sögunni til. Húslestur úr Vídalínspostillu á sunnudögum heyrir nú sögunni til. Og í ljósi þessara dæma um það sem var einhverju sinni hluti af daglegu lífi en þekkist ekki lengur hlýt ég að spyrja hvers vegna eldhúsdagsumræður á Alþingi heyri ekki sögunni til? Ég hef grun um að enginn þingmaður sjái nokkurn tilgang með þessum eldhúsdagsumræðum, ekki einu sinni þeir sem stíga í púltið og lesa þar upp textann sinn. Og svo var að sjá að þingmenn, sem sátu í sætum sínum, teldu tíma sínum betur varið með því að dunda sér við snjallsímann en að leggja eyru við það sem heyra mátti úr ræðupúltinu. Ég held að sé kominn tími til hjá Alþingi að leggja þennan sið niður.