Að blóðmjólka almenning
Í hvert sinn sem þið farið út í búð greiðið þið 29 krónur af hverjum 100 í sérstakan okurskatt.
Gunnar Smári skrifar:
Hinn svokallaði frjálsi markaður gat ekki rekið bankakerfið á Íslandi. Það féll yfir alþýðu manna. Hinn svokallaði frjálsi markaður gat ekki leyst húsnæðiskreppuna, byggði ekkert fyrir þær fjölskyldur sem voru í neyð en endalaust af lúxusíbúðum sem enginn vildi. En getur hinn svokallaði frjálsi markaður ekki selt matvörur skammlaust á Íslandi? Fjanda kornið, ef hann getur ekki selt mjólk, brauð, grjón, grænmeti, kjöt og fisk, til hvers er honum þá treystandi?
Í hvert sinn sem þið farið út í búð að kaupa í matinn greiðið þið 29 krónur af hverjum 100 í sérstakan okurskatt til íslenska auðvaldsins, örfárra fjölskyldna sem liggja eins og mara á íslensku samfélagi. Það er meira en ríkið tekur í virðisauka til að fjármagna skóla, sjúkrahús og innviði. Örfáar fjölskyldur, líklega ekki fleiri en 250, taka hærri upphæð til sín, sem sinn skerf. Og nota hann til að auka enn völd sín í samfélaginu, tryggja að þær geti enn blóðmjólkað almenning.