Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að þessi maður hefði verið kosinn forseti Íslands.
Stefán Erlendsson skrifar:
Undanfarinn áratug höfum við þráfaldlega spurt okkur þeirrar spurningar hvort, og þá hvaða, lærdóma við höfum dregið af fjármálahruninu 2008 sem skildi eftir stórt sár á þjóðarsálinni. Og sitt sýnist hverjum um það eins og annað.
Einn mikilvægur þáttur hrunsins og eftirmála þess varðar ábyrgð og skilning okkar á ábyrgðarhugtakinu. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að enginn, já enginn, sem kallaður var fyrir nefndina gekk fram fyrir skjöldu og lýsti ábyrgð sinni á því sem gerðist.
Viðbrögð formanns Þingvallanefndar við niðurstöðu úrskurðarnefndar jafnréttismála koma því varla á óvart. Hann segist að vísu bera ábyrgð á því að niðurstaða nefndarinnar – og ráðning þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum – hafi verið ólögleg en ekki verður séð að hann líti svo á að það hafi einhverjar sérstakar afleiðingar fyrir hann sjálfan eða stöðu hans innan nefndarinnar.
Engin krafa hafi verið gerð um það að hann viki úr nefndinni í apríl á síðasta ári þegar niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lá fyrir – hvorki „lögmaður nefndarinnar né þingflokksformaður VG hafi talið ástæðu til þess.“
Í þessum viðbrögðum nefndarformannsins og fyrrverandi forsetaframbjóðanda er einkum tvennt sem stingur í augu: Annars vegar það viðhorf að maður beri/geti borið ábyrgð á mistökum eða misgerð án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir mann sjálfan. Hins vegar er óbein vísun í kennivald lögfræðings og að hann njóti áfram trausts á meðal félaga sinna.
Til að bíta höfuðið af skömminni segist hann enga ábyrgð bera á upphæðinni sem Ólína fékk greidda. Það hafi verið ríkislögmanns að semja um bótagreiðslur.
„Það hefði engu máli skipt hvort þau hefðu samið um eina milljón eða tuttugu. Ég ber enga ábyrgð á þessum gjörningi þarna. Hann er alfarið á ábyrgð Ólínu og ríkislögmanns.“
Þessi ábyrgðarskilningur gegnsýrir opinbert líf á Íslandi og sennilega líka samfélagið allt. Hann er í senn til marks um takmarkaðan siðferðisþroska (skilning) einstaklinga og siðferðilegt menningarstig þjóðarinnar.
Og hvað þetta áhrærir þá höfum við ekkert lært af hruninu. Við eigum ennþá svo langt í land með það að ég og mín kynslóð munum örugglega ekki upplifa neina breytingu í þessu sambandi. Jafnvel ekki heldur kynslóð barnanna minna….
Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að þessi maður hefði verið kosinn forseti Íslands.
PS. Loks má geta þess að nefndarformaðurinn viðurkennir eigin vanhæfni með því að hann hafi „treyst hinum ráðna ráðgjafa, sem viðstaddur var allt ferlið, til þess að gera hlutina rétt.“