- Advertisement -

Að aðlagast sólinni, ekki klukkunni

Gunnar Smári skrifar: Samkvæmt þessu korti er klukkan nánast hvergi rétt miðað við sólargang (rautt merkir að klukkan sé á eftir, grænt að hún sé á undan og þessi fáu hvítu svæði eru þau þar sem hádegið hittir á klukkan tólf, plús mínus hálftími).

Gunnar Smári Egilsson.

Í öllum þessum löndum aðlagar fólk sig að sólinni; það getur verið gríðarlegur munur eftir svæðum hvað fólk er að gera klukkan sjö á morgnanna. Sums staðar er fólk komið til vinnu, búið með morgunmat og skokk kringum hverfið og alls konar. Annars staðar er fólk rétt að opna augun. Og enn annars staðar eru flestir aðrir en bakarar enn steinsofandi. Reykjavík vaknar frekar seint, kaffihús og búðir opna seint, líka skrifstofur. Sem er fínt. En skólar byrja einhverra hluta vegna snemma. Sem er skrítið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar ég var í skóla byrjuðu sumir klukkan átta, voru í kennslustofunni til hádegis og svo í aukatímum eftir hádegi. Aðrir voru í aukatímum fyrir hádegi og í kennslustofunni eftir klukkan eitt. Þá voru skóla tvísetnir. Nú eru þeir einsetnir. En einhverra hluta vegna þá var bara seinni vaktin felld út. Dóttir mín er í skóla frá 8:20 til 14:00. Það mætti vel breyta þessu í 9:50 til 15:30. Til hvers að hafa einsetna skóla ef börnin eru föst á fyrri vaktinni?

Einu sinni voru skrifstofur opnar 9 til 5. Nú eru bankar opnir frá 9 til 4. Og tryggingastofnun frá 9 til 3. Kannski ættu bankarnir að hafa opið frá 10 til 5 og Tryggingastofnun frá 10 til 4. Það hljómar einfalt.

Blessunarlega eru fáar þjóðir aðrar en Íslendingar sem reyna að aðlaga sig klukkunni. Fólk út um allan heim kýs frekar að aðlaga sig sólinni. Það mun ekki auka næmi okkar fyrir sólinni að breyta klukkunni. Ef við tökum ekki mark á henni núna gerum við það ekki heldur eftir seinkun klukkunnar. Sama fólkið og ákvað að Tryggingastofnun ætti að vera opin frá 9 til 3 mun ákveða að breyta opnunartímanum í 8 til 2. Og skólinn hjá dóttur minni mun byrja klukkan 7:20 og klárast klukkan 13:00. Þeir sem taka þessar ákvarðanir vilja komast í sitt í golf eða hvað það nú er sem veldur því að fólk vill frekar klára daginn snemma en að byrja hann seint.

Útvegsbankinn árið 1939. Opnað klukkan hálf ellefu (það er ekki hollt að fara í banka snemma á morgnanna), loka í hádeginu (þá á fólk að sitja til borðs, næra sig og spjalla við vini og vandamenn) opnað aftur klukkan eitt og lokað klukkan fjögur. Það er í sjálfu sér ekkert að klukkunni en við höfum svolítið tapað vitinu. Og munum ekki endurheimta það þótt við seinkum klukkunni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: