- Advertisement -

Ábyrgðin er forstjóra Gæslunnar, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra

Ríkisvaldið misnotar stöðu sína gagnvart starfsmönnum sínum og dregur á langinn að ljúka endurskoðun kjarasamnings.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni hafa átt í kjaradeilu við Gæsluna í einhvern tíma. Ég veit ekki hve langan, en hef það á tilfinningunni að hann telji í ansi mörgum mánuðum. Þrátt fyrir að allir viti mikilvægi flugvirkjana vegna reksturs flugflota Gæslunnar, þá hafa samningar ekki náðst, en treysta menn á þolinmæði flugvirkjanna.

Svo kom að því að þolinmæði brast og blásið er til verkfalls. Þá var öryggisteppinu kippt undan ótrúlega mörgum í þjóðfélaginu og dómsmálaráðherra fer strax að tala um lög á deiluna. Allir eru voðalega hissa að flugvirkjar séu svona „ósvífnir“ að missa þolinmæðina yfir áhugaleysi stjórnvalda og segja hingað og ekki lengra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Enn einu sinni kemur í ljós, að ríkisvaldið misnotar stöðu sína gagnvart starfsmönnum sínum og dregur á langinn að ljúka endurskoðun kjarasamnings. Hve oft höfum við heyrt þetta? Og til að gera lausnina erfiðari, þá er farið í hótanir, gert lítið úr viðsemjandanum, hóað í hina og þessa hópa til að fylla viðsemjandann samviskubiti, o.s.frv.

Verkföll eru neyðarúrræði launafólks, þegar launagreiðendur hafa einmitt notað öll tólin í verkfæraboxinu til að tefja að samningar náist. Þau væru hins vegar nánast óþörf, ef nýr samningur tæki einfaldlega gildi frá þeim degi sem hinn gamli rann út. Ef tafir verða, þá eru afturvirkargreiðslur einfaldlega hærri, en launagreiðandinn græðir ekkert á töfinni.

Núna er það bara elítan sem fær afturvirkar launahækkanir, svona eins og ráðherrar, þingmenn og dómarar. Almennt launafólk verður að berjast fyrir bættum kröfum og þeir sem fá greitt frá almannatryggingum hafa ekki einu möguleika á að fá ríkisstjórnir til fara að lögum sem tilgreina hvernig eigi að standa að endurskoðun greiðslna.

En aftur að flugvirkjunum. Þeir bera ekki ábyrgð á því að truflun verður á rekstri flugflota Gæslunnar. Sú ábyrgð liggur hjá forstjóra Gæslunnar, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra. Ef þessir aðilar hefðu staðið sig, þá væri búið að semja fyrir löngu.

Greinin birtist á Facebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: