Fréttir

Á ríkisstjórnin ekki að segja af sér?

By Miðjan

October 14, 2022

Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi:

Við erum að fá upplýsingar frá bráðamóttökunni um að þar sé allt komið á annan endann. Það vantar 38 hjúkrunarfræðinga á vakt í næstu viku. Ég spyr mig: Hvað er að í heilbrigðiskerfinu? Það er alltaf að verða verra og verra og það hefur versnað stórlega síðan ég kom hingað inn á þing. Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku sagði í Fréttablaðinu um daginn: Þetta er búið að vera slæmt, mjög slæmt. Við höfum lengi haldið að það gæti ekki versnað. Við erum búin að hrópa, kalla, þegja, hvísla, kjökra og gráta — allan tilfinningaskalann.

Er ekki kominn tími til ríkisstjórnin geri eitthvað eða segi hreinlega af sér ef hún ræður ekki við þetta?

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: Varðandi bráðamóttökuna þá vinnum við stöðugt að málum hennar, bæði með stjórn og stjórnendum Landspítala og bráðamóttöku sem og í ráðuneytinu með sérstöku viðbragðsteymi sem fór af stað í upphafi sumars. Við erum búin að stækka þann hóp verulega til að taka utan um alla bráðaþjónustu í landinu. Því er búið að gera fjölmargt sem stendur til bóta.