Það kostar mikla fjármuni, að fást við lúsafarganið.
Árni Gunnarsson skrifar:
Íslendingar, sem hafa áhyggjur af neikvæðum áhrifum af laxeldi í sjó, hafa hvað eftir annað skorað á íslenska (norska) laxeldismenn, að flytja allar sjóeldiskvíar á land og stunda laxeldi á landi. – Þetta hef ég gert margoft með skýrum rökum um minni mengun, minna lúsafár, færri víruskvilla, minni neikvæð áhrif á íslenska laxastofna og færri laxa, sem sleppa úr kvíum. Hér hefur verið talað fyrir daufum eyrum, bæði eldismanna og stjórnvalda, sem láta sig einu skipta hvernig arðurinn í greininni verður til. Mér er aðeins kunnugt um eitt íslenskt fyrirtæki, sem hyggur á landeldi. Það er Samherji.
Nú er svo komið á tveimur helstu fréttavefum laxeldismanna, að þar eru nánast daglega fréttir af eldisfyrirtækjum um allan heim, sem ýmist eru að flytja eldið á land eða reisa nýjar risaeldisstöðvar á landi. Síðast í dag sá ég frétt um, að hið risastóra og gamla eldisfyrirtæki Grieg hygðist flytja allan sinn rekstur á land. Ástæður þess arna eru fjölmargar. Eldi í sjó hefur orðið fyrir margvíslegum áföllum. Það kostar mikla fjármuni, að fást við lúsafarganið. Í þeim tilgangi er oft notað eitur, sem fellur á sjávarbotn undir kvíum, ásamt með fóðurleyfum, þ.e. laxaskít, sem í eru ýmis efni, sem notuð eru til varnar fisksjúkdómum. Þá berast stöðugar fréttir af þúsundum og tugum þúsunda eldislaxa, sem sleppa úr kvíum og eru þegar farnir að hafa áhrif á upprunalega laxastofna, eins og t.d. í Noregi.