- Advertisement -

Á Katrín afturkvæmt?

Bakland VG er að bresta. Lítill áhugi fyrir ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Innviðir Sjálfstæðsiflokksins eru tvístígandi. Kannski verður Sigmundur Davíð örlagavaldur við myndun næstu ríkisstjórnar.

Stjórnmál Katrín Jakobsdóttir er komin í ógöngur. Hugsanlega hefur hún gengið of langt. Þeir félagar í VG sem starfa hvað nánast með Katrínu kinka kolli og hún heldur því áfram að hitta Bjarna Benediktson og Sigurð Inga Jóhannsson.

Á meðan gengur á ýmsu innan flokksins hennar. Fólk hættir í flokknum og það sem er ekki síður alvarlegt er að kjósendur undrast hvaða leið er verið að fara og búa sig til brottfarar. Það mun stór sjá á Vinstri grænum.

„Ég get ekki kyngt því að við berum ábyrgð á því að koma Sjálfstæðisflokknum til valda eða séum til í að opna þann möguleika. Bara alls ekki,“ segir Drífa Snædal, fyrrum framkvæmdastjóri flokksins. Hún sýnilega ekki ein á þessari skoðun. Nóg um þetta að sinni.

Nú kárnar gamanið

Af fréttum dagsins má draga þá ályktun að gamanið sé búið hjá þeim þremur, Bjarna, Katrínu og Sigurði Inga. Til þessa hafa þau verið að ræða um í hvaða sprungur á innviðunum eigi að sparsla og hversu mikið. Einfaldasta mál í heimi. Þau eru hvort kannski ekki sammála um allt í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Að venju ræður sá sem skemmst vill fara, sá sem vill helst halda í horfinu.

En nú kárnar gamanið. Hver fær hvað? Ef Katrín fær forsætisráðuneytið hvað fá hinir í staðinn? Hvað kostar stóllinn? Þegar er komið að því að draga ávinningana heim, sýnir hver og einn sitt rétta andlit. Bjarni vill mikið eigi hann að gefa eftir forsætið. Meira en Katrín vill samþykkja. Þessir hlutir munu vaxa dag frá degi. Og jafnvel verða endalokin.

Bjarni Benediktsson.
Ekki er víst að hann sannfæri sitt heimafólk.

Kok Sjálfstæðisflokksins

Bakland Sjálfstæðisflokksins er ekki búið að samþykkja og alls ekki sættast á að Sjálfstæðisflokkurinn leiði „kommúnista“ til æðstu metorða íslenskra stjórnmála. Bara alls ekki. Þó Bjarni kunni að vera sterkur í eigin hópi þarf hann góða mixtúru til að troða öðru eins niður í kok flokksfélaga sinna. Þetta getur kostað lok viðræðnanna.

Kannski þarf Bjarni ekki að fara út fyrir óvenju fámennan þingflokk sinn til að finna andstæðinga hugsanlegrar ríkisstjórnar. Innan VG er vilji til þess að Bjarni verði ekki ráðherra nái flokkarnir saman. Að sama skapi er mikil stemning að Háaleitisbraut 1 fyrir því að Steingímur J. Sigfússon fái ráðuneyti. Þetta er allt svo tæpt.

Óvenjulegan mann í óvenjulegar aðstæður

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Er hann lykillinn að lausninni?

 

Best að spá. Margt bendir til að ekki takist að mynda ríkisstjórn þessara flokka. Hvað þá? Aðstæður eru óvenjulegar. Þegar svo er þarf eitthvað óvenjulegt að gerast. Það mun gerast. Sá sem kemur með lausnina er sá sem enginn vill vinna með; Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hann stígur fram og lofar að verja minnihlutastjórn VG, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar vantrausti. Í staðinn fær Miðflokkurinn formennsku í einni þingnefnd eða tveimur, jafnvel forseta þingsins fyrir Gunnar Braga Sveinsson.

Með því sér Sigmundur Davíð til þess að Framsóknarflokkur Sigurðar Inga verður áhrifalaus smáflokkur. Ekki má gleymast að eitt fyrsta verk Sigmundar Davíðs í stjórnmálum, þá nýorðinn formaður Framsóknarflokksins, og verandi sjálfur utan þings, var að lofa að verja minnihlutastjórn VG og Samfylkingarinnar falli. Þetta var í vandræaðástandi árið 2009. Sagan nánast endurtekur sig.

En á Katrín afturkvæmt?

Þá er það ein af stórum spurningunum. Á Katrín afturkvæmt sem foringi vinstri flokkanna og þeirra sem kalla sig umbótaflokka? Það er ekki víst. Kannski enn, en hún verður að gæta sín. Hín hefur ekki endalausan tíma. Því fyrr sem hún sér af sér því betra fyrir hana.

Af því sem sagt var í dag er ljóst að það er ekkert fjör í viðræðunum. Grímurnar falla. Hin réttu andlit blasa við. Hagsmunabaráttan hefur tekið yfir. Hún er erfiðari og meira slítandi en viðræður um brýr og byggingar.

Sigurður Ingi.
Enginn spyr um Framsókn.

Tröll fyrir dyrum

Þau sem nú reyna að mynda ríkisstjórn vita að það eru tröll fyrir dyrum. Bæði Katrín og Bjarni eiga mikið eftir, haldi þau áfram mikið lengur, til að vinna hugmyndum sínum stuðnings í eigin flokkum. Með öllu er óvíst að þeim takist, verði látið á það reyna.

Eins er óvíst að Katrín nái að smala saman flokksfólki og kjósendum VG. Ef henni á að takast það verður hún að standa sig mjög vel, sem hún vissulega kann og getur.

Hvergi er talað um Framsókn. Framsókn kom óheiðarlega fram í síðustu viðræðum og verði ekki af þeirri ríkisstjórn sem þau taka þátt í að reyna að mynda nú, dæmist Framsókn hugsanlega til áhrifaleysis.

-sme

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: