Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:
Vissuð þið að á ári hverju er hundruðum milljóna stolið af félagsfólki Eflingar; vangoldin laun, orlof, desemberuppbót, orlofsuppbót og svo framvegis sem fólk á inni fyrir sína unnu vinnu látið hverfa í vasa atvinnurekandans?
Vissuð þið að það er ekki refsivert á Íslandi að stela launum af vinnuaflinu?
Vissuð þið að eitt af loforðum stjórnvalda vegna hins svokallaða Lífskjarasamnings var að; „Heimildir til refsinga verði auknar, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns“
Vissuð þið að ekkert bólar á því að þetta loforð verði uppfyllt?
Vegna þessa ákvað ég að gera kröfu á stjórnvöld, til að deila hér á Facebook. Hún er uppsett eins og hefðbundin krafa frá félaginu, en héðan eru sendar hundruð slíkra krafna á ári hverju fyrir hönd félagsfólks Eflingar. Á síðasta ári einu fóru frá okkur 700 kröfur upp á meira en 345 milljónir króna (og svo eru verkalýðsfélög um allt land sem eru líka að senda út endalaust af kröfum fyrir sitt fólk).
Ég stíla kröfuna á forsætisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, atvinnu og nýsköpunarráðuneytið og fjármálaráðuneytið.