Á eldra fólk að bjóða fram?
Gunnar Smári skrifar:
Í tilefni þess að umræða um framboð eftirlaunafólks er enn einu sinni á dagskrá er hér smá yfirlit yfir slíka flokka í Evrópu:
Holland:
50PLUS fékk um 3% í þingkosningum og 4 af 150 þingmönnum í fulltrúadeild og 4 af 75 þingmönnum í öldungadeild. Í EVrópukosningunum 2019 fékk flokkurinn tæp 4% og einn þingmann af 26 þingmönnum Hollendinga á Evrópuþinginu. Flokkurinn hefur fengið meira fylgi í sveitarstjórnum, meira í dreifðari byggðum en þéttbýlustu borgunum, mest rúm 9% í Assen og 3 fulltrúa af 33 í sveitarstjórn.
Króatía:
Hrvatska stranka umirovljenika (Króatíski eftirlaunaþegaflokkurinn) fékk um 4% þegar hann bauð fram sérstaklega og 1-3 af 150 þingmönnum á þingi. Hann varð síðan hluti Kukuriku-bandalagsins með öðrum miðju og miðvinstri flokkum og hefur í gegnum það bandalag haldið 1-2 þingmönnum undanfarna kosningar.
Ítalía:
Partito Pensionati (Eftirlaunaflokkurinn) fékk mest 0,9% atkvæða 2006 en rann svo inn í kosningabandalag Berlusconis. Það gaf flokknum einn þingmann af 630 í kosningunum 2018.
Lúxemborg:
Alternativ Demokratesch Reformpartei (Óháði lýðræðislegi umbótaflokkurinn) var stofnaður sem einsmálsflokkur um jöfnun eftirlauna milli opinberra starfsmanna og fólks á almennum markaði og fékk strax tæp 8% í kosningum 1989 og mest rúm 11% í kosningum 1999. Stefnan hefur breikkað eftir því sem flokkurinn eldist og þroskast. Hann fékk síðast rúm 8% í kosningum 2018 og 4 af 60 þingmönnum. Kannski á þessi flokkur ekki heima í upptalningunni yfir flokka eftirlaunafólks.
Serbía:
Partija ujedinjenih penzionera Srbije (Flokkur sameinaðs eftirlaunafólks í Serbíu) hefur náð góðum árangri, verið með 9-12 af 250 þingmönnum síðan 2012 og verið hluti af ríkisstjórn, formaðurinn ráðherra án ráðuneytis. Þegar stofnandinn Jovan Krkobabić dó 2014 tók sonur hans við sem formaður.
Slóvenía:
Demokratična stranka upokojencev Slovenije (Lýðræðislegi eftirlaunaflokkur Slóveníu) hefur verið hluti af ríkisstjórn 2004, fengið 5-10% atkvæða og 4-10 af 90 þingmönnum. Formaðurinn, Aleksandra Pivec, er aðstoðar-forsætisráðherra auk þess að vera landbúnaðarráðherra.
Fylgi annarra flokka eftirlaunafólks:
Noregur / Pensjonistpartiet: 0,4% í þingkosningum
Portúgal / Partido Unido dos Reformados e Pensionistas: 0,3% í þingkosningum
Rússland / Rossiyskaya Partiya Pensionerov za sotsialnuyu spravedlivost: 1,7% í þingkosningum.
Auk þessara flokka hafa verið stofnaður eftirlaunaflokkar í svo til öllum löndum Evrópu en með minni árangri. Margir þessara flokka eru hættir starfsemi eða hafa runnið inn í aðra flokka.