Þegar rýnt er í tilkynninguna er það ljóst að ráðherra hefur eitthvað allt annað í huga heldur en að koma dreifðum byggðum landsins til bjargar.
Gunnar Ingiberg Guðmundsson skrifar:
Strandveiðisjómenn biðu með eftirvæntingu eftir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra myndi láta að sér kveða varðandi tilhögun strandveiða fiskveiðiárið 2019/2020. Það var flestum ljóst að fjölgun báta væri líkleg við veiðarnar miðað við núverandi efnahagsástand þar sem heldur illilega hefur svert að atvinnutækifærum um land allt.
Mörgum er því mikið í mun að fá skýra og greinargóða reglugerð um tilhögun strandveiða þetta árið og að reglum um strandveiðar verði ekki breytt til hins verra, og ráðuneytið virtist fram að þessu vera að koma til móts við einhverja útgerðarflokka eins og t.d grásleppuveiðar. Afskaplega óheppilegt hefði verið fyrir þá sem þær stunda að vera settir í sóttkví, þar sem dagar til sóknar eru mjög fáir og verða að nýtast samfleytt frá upphafi veiða. Fæstir bjuggust við því í þessu árferði að ráðherrann nýtti tækifærið til þess að hefta strandveiðar enn frekar.
Nú er útlit fyrir að útgerðir hægi heldur á veiðum annarra útgerðaflokka og að rýmri heimildir verði til að flytja kvóta á milli ára til að bregðast við erfiðum mörkuðum með ferskan fisk. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gaf út þann 27. mars sl. fimmtán liða áætlun. Af þeim eru þrjár aðgerðir sem hafa bein áhrif á sjávarútveg og til viðbótar mun aukið fjármagn fara til hafrannsókna.
En þegar rýnt er í tilkynninguna er það ljóst að ráðherra hefur eitthvað allt annað í huga heldur en að koma dreifðum byggðum landsins til bjargar. Efnislega eiga flestar aðgerðirnar við uppsjávarflotann og fyrir hann skal og gefa út veiðiheimildir fyrr og hraðar en áður. Ég get ekki séð í hendi mér hvernig Kristján Þór sér það fyrir hvort makríllinn eða loðnan koma að ströndum landsins og hvernig skal styðja það gagnreynt að áætla magnið áður en göngurnar gera vart við sig.
Í lið 13 í aðgerðum ráðuneytisins stendur:
„Árskvótar deilistofna uppsjávarfisks gefnir út.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun hraða vinnu við útgáfu árskvóta til veiða úr þremur deilistofnum uppsjávarfisks, þ.e. síldar, kolmunna og makríls. Með því er stuðlað að auknum fyrirsjáanleika við þessar veiðar.“
Mánuði síðar er fólki hætt að lýtast á blikuna. Strandveiðarnar eru rétt handan við hornið og margir farnir að huga að sumarverkum. En ekkert heyrist, margir þó vongóðir um að tekið yrði tillit til aðstæðna og strandveiðarnar álitnar með betri mótvægisaðgerðum sem hægt væri að ráðast í með litlum tilkostnaði.
En allt kemur fyrir ekki. Kristján laumar út reglugerð sem við fyrstu sýn lítur út efnislega eins og strandveiðum var háttað veiðitímabilið 2018/2019. En þegar betur er að gáð er ljóst að eftir nokkrar orðalagsbreytingar vantar 10.7% þorskkvótans samkvæmt þeim.
Í tilkynningu ráðuneytisins um strandveiðar stendur:
„Nokkrar orðalagsbreytingar eru gerðar frá reglugerð síðasta árs til að auka skýrleika, en reglugerðin byggir á ákvæðum 6. gr. a. í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.“
Í stað þess að tilgreina aflamagn sem áætlað er til veiða sem 11.100 tonn af óslægðum botnfiski og því svo til viðbótar fríar veiðar á ufsa sem meðafla upp að 1.000 tonna marki, sníður ráðherrann þetta þannig að til strandveiða hlutast 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa sem saman leggjast í 11.100 tonn. En raunveruleikinn er sá að þarna hverfa um 1.033 tonn af þorski og í staðinn er ufsahámarkinu skeytt við sem og þessum slatta af karfa.
Þetta ætti ráðherranum að vera ljóst þar sem hann var skipstjóri og er tamt að reikna út aflaverðmæti út frá þorskígildisstuðlum. Þetta ber þess öll merki að hann viti upp á hár hvað hann sé að gera. Til að bæta gráu ofaná svart þá hreykir hann sér síðan af því að nú skuli leyfilegt að veiða á helgidögum. En gleymir samt að það er enginn fiskmarkaður opinn á sautjánda júní eða á frídegi verslunarmanna. Hvaða áhrif hefur það ?
í lok tilkynningar um aðgerðirnar 15 stendur.
„Eðli málsins samkvæmt breytist staðan hratt og mun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áfram fylgjast náið með þróun mála og grípa til frekari aðgerða sem nauðsynlegar verða.“
í lok tilkynningar um reglugerð strandveiða stendur.
„Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er nú unnið að gerð lagafrumvarps til að bregðast við áhrifum COVID-19 á þá sem stunda strandveiðar og verður það kynnt nánar á næstu vikum.“
Það eru heldur kaldar kveðjur sem strandveiðisjómenn fengu í kjölfar sumardagsins fyrsta. Ráðuneyti og stofnanir landsins eru hvött til þess að leggja öllum sínum atvinnugreinum lið í baráttunni við farsóttina og afleiðingar henni tengdar. Því skýtur það skökku við að ráðherrann okkar ætli sér að draga úr veiðunum og kæla með því efnahag landsins enn frekar. Jafnframt tefla þeim sem þær stunda í tvísýnu þar sem aftur er kominn hvati til ólympískrar sóknar.
Því ætla ég að ljúka þessum skrifum á bón: Kristján, er einhver möguleiki fyrir strandveiðisjómenn og byggðirnar í kringum landið að hægt sé að auka fyrirsjáanleika veiðanna eins og er gert fyrir uppsjávarflotann? Ég veit að þetta er voðalega erfitt og ósanngjarnt og vegið að þér úr öllum áttum, aðallega norðanátt eins og gengur hér á landi. Hér hefurðu kjörið tækifæri til þess að sanna að norðangarrinn bíti ekki á þig. Þó að svo verði ekki nema um stundarsakir, erum við ekki öll í þessu saman?
Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.