Tillaga hóps þingmanna um þjóðaratkvæði um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar virðist vera utan við raunveruleikann. Völlurinn getur aldrei hentað því hlutverki sem þingmennirnir ætla honum.
„Takmörkun á næturflugi og lendingum á Reykjavíkurflugvelli á rætur að rekja allt aftur til 1963 þegar bæjarstjórn Kópavogs sendi frá sér ályktun til borgarstjórnar og Alþingis um að hætta næturflugi, takmarka millilandaflug og færa flugvöllinn á betri stað. Starfsleyfi vallarins hafa allar götur síðan verið með þessum takmörkunum. Skýrar undanþágur eru þó vegna varaflugvallarhlutverksins og er ekki ástæða til að breyta því,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Moggaviðtali í dag.
Drjúgur hópur þingmanna vill að þjóðin ákveði framtíð flugvallarins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir gefa greinilega lítið fyrir þetta, sem sagt er frá í Mogganum í dag:
„Flughreyfingar séu heimilar á virkum dögum frá kl. 7 til kl. 23:30 og um helgar og á almennum frídögum frá kl. 8 til 23:30. Frá 1. maí til 1. september séu flughreyfingar heimilar frá kl. 7:30 til 23:30 um helgar og á almennum frídögum.“
Dagur segir einnig: „Spurt er sérstaklega um Reykjavíkurflugvöll. Hann er með of stuttum brautum og hefur ekki þróunarmöguleika til framtíðar sem varaflugvöllur, samkvæmt skýrslu Þorgeirs. Undir það hljóta allir að geta tekið.“