- Advertisement -

Á að færa Ísland rúm 25 ár aftur í tímann?

Við getum því ekki treyst því, að vera í sömu stöðu á Norðurlöndunum, ef við yfirgefum EES.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Marinó G. Njálsson.

Nokkrum mínútum eftir að niðurstaðan var ljós í atkvæðagreiðslunni um orkupakka 3, þá birtist bloggfærsla með fyrirsögninni „EES verður að víkja“ frá andstæðingum pakkans. Ég benti á það fyrr á árinu, að þetta myndi gerast. Varaði raunar við því, að andstaða (a.m.k. sumra) gegn orkupakkanum væri bara fyrsta skrefið í áhlaupi gegn EES-samningnum. Endanlegt markmið væri uppsögn samningsins. Ég spurði raunar að því á vegg Frosta Sigurjónssonar hvort þetta væri markmiðið. Fékk ekki beint svar, túlka mátti viðbrögðin að öllum brögðum yrði beitt.

Nú skora ég á forsvarsmenn Orkunnar okkar, að koma hreint fram og svara hvort næsta skref hjá þeim verði barátta fyrir uppsögn EES-samningsins. Einnig skora ég á þingmenn Miðflokksins að svara sömu spurningu.

Eru menn virkilega það tapsárir að þeir eru til í að segja upp þeim samningi, sem lagt hefur grunninn að efnahagslegum uppgangi á Íslandi? Vilja menn færa Ísland rúm 25 ár aftur í tímann hvað varðar aðgengi að mörkuðum og frelsi fólks til atvinnu og búsetu í löndum ESB (og Noregi og Lichtenstein)? Búseta mín í Danmörku undanfarin ár hafa sýnt mér að Íslendingar eru að fá meiri réttindi þar vegna EES-samningsins, en Norðurlandasamstarfið gefur. Við getum því ekki treyst því, að vera í sömu stöðu á Norðurlöndunum, ef við yfirgefum EES. Ég veit að það kostar að vera aðili að EES, en tækifærin og fjárhagslegur ávinningur hafa verið mun meiri.

Ég vara við því, að taka of seint til varna gegn kröfu um uppsögn EES-samningsins. Mæta verður slíkum kröfum strax af fullum þunga til að koma í veg fyrir það slys sem útgangan væri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: