- Advertisement -

Erum öll stolt af kvótakerfinu

- sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra á Alþingi í dag

„Við erum með öflugt og gott fiskveiðistjórnarkerfi sem við erum stolt af,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í dag.

Þar sem þorskkvótinn verður trúlega aukinn, spurði Oddný Harðardóttir hvort Þorgerði Katrínu þyki ekki réttlát og góð tillaga að viðbótarkvótinn, hver sem hann verður, verði boðinn út í stað þess að færa hann þeim útgerðum sem eru með kvóta fyrir.

Ráðherra sagði að skipuð verði nefnd, þar sem allir þingflokkar koma að, sé leggi fram hugmyndir. „En ég vil benda á að meðan nefndin, sem hefur ekki mikinn tíma, hún hefur út þetta ár, er að störfum, tel ég rétt að hún fái svigrúm til að meta hvaða leiðir eru bestar til að stuðla að sem víðtækastri sátt um þennan grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar.“

Oddný steig aftur í ræðustól: „Rekstri útgerðarfyrirtækja er ekki ógnað með því að bjóða út viðbótarkvótann. Hvað mælir gegn því að bjóða út viðbótarkvótann? Í stjórnarsáttmálanum eru flest umbótamál Viðreisnar afgreidd með orðum eins og að skoða skuli hvort eitthvað ætti að gerast. Og þá helst undir lok kjörtímabilsins. Það er eins og það sé gert til að tryggja að ekki gefist tími til að hrinda þeim í framkvæmd.“

Þorgerður Katrín sagði; „…ég verð að segja að eitt besta tækifæri til að fara markaðsleiðina, uppboðsleiðina, sem við háttvirtur þingmaður erum svolítið sammála um, og er hægt að taka undir eitt og annað sem háttvirtur þingmaður sagði hér áðan, var í tíð vinstri stjórnarinnar þegar nýr stofn, makríllinn, kom inn í íslenska lögsögu. Þá var ekki farin sú leið sem m.a. Samfylkingin og aðrir hafa talað um. Þá var gullið tækifæri, nýr stofn í íslenskri lögsögu, að prófa sig áfram með nýjar leiðir.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: