„Húsnæðisáætlun meirihlutans er því miður gamlar fréttir í nýjum umbúðum,“ segir í upphafi bókunnar sem var lögð fram á síðasta fundi borgarstjórnar.
Það voru Borgarfulltrúarnir Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson, bæði í Sjálfstæðisflokki, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir Framsóknarflokki, sem lögðu bókunina fram.
Þau segja athyglisvert að sjá hvernig meirihlutinn tekur vanefndir síðustu ára um uppbyggingu og rúllar þeim inn í nýjar áætlanir á meðan það er deginum ljósara að meirihlutanum hefur hingað til gengið illa að framfylgja eigin áætlunum.
„Einstrengisleg þéttingarstefna og lóðaskortsstefna hefur stóraukið húsnæðisvandann í borginni. Síðustu árin hefur borgarstjóri þulið upp hvað fasteignafélögin eru að byggja í borginni eða ætla að fara að byggja í borginni á lóðum sem hafa verið í höndum þessara félaga lengi. Hann hefur hins vegar ekki verið jafn duglegur við að úthluta lóðum eða framfylgja stefnum og áætlunum sem settar hafa verið. Nú eru liðin rúm fimm ár síðan húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt og ástandið hefur aldrei verið verra.“
-sme