- Advertisement -

Brúneggjamálið: MAST vildi ekki vara neytendur við

- Alþingi ræðir nýja skýrslu um Matvælastofnun og Brúneggjamálið. Stjórnendur Brúneggja nutu vafans.

Þorgerður Katrín landbúnaðarráðherra.
„…þá kom í ljós að ástandið hafði ekki batnað heldur versnað…“

Yfirstjórn Matvælastofnunnar ákvað að fara ekki að ráðum eigin starfsmanna og vara almenning við Brúneggjum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu, sem verður til umræðu á Alþingi á þriðjudaginn kemur. „Þar hefur komið fram að eftirlitsmaður hafi lagt fram tillögu um að aðvara almenning og taka á málinu. Yfirstjórn MAST taldi slíkt ekki viðeigandi vegna yfirvofandi vörslusviptingar,“ segir meðal annars í skýrslunni.

Þar segir einnig: „Eftir sem áður má velta því upp hvort sem sú aðgerð að vörslusvipta hefði staðist þágildandi lög eða ekki. Þá hefðu dýrin a.m.k. átt að fá að njóta vafans en ekki forsvarsmenn Brúneggja.“

Athygli vakti í Brúneggjamálinu hversu seint var gripið til alvöru aðgerða gegn fyrirtækinu. Í skýrslunni segir á einum stað: „Þá verður að hafa í huga að mikil nálægð í litlu samfélagi getur jafnframt haft sitt að segja þegar um er að ræða aðgerðir sem geta riðið starfsemi tiltekinna aðila að fullu. Það skal tekið skýrt fram, að ekkert liggur fyrir um það hvort það hafi haft áhrif í þessu tilviki, en á þetta er bent til þess að undirstrika mikilvægi þess að aðilar á vettvangi hafi nægilegan stuðning til þess að fylgja eftir erfiðum málum.“

Þar segir einnig að; „…hið svokallaða Brúneggjamál, sem hér hefur verið til umfjöllunar, verður að teljast einstakt í sögu MAST. Í því hefur reynt á margvíslega ákvörðunar- og samskiptaferla sem ekki virkuðu sem skyldi og mikilvægt er að draga lærdóm af.“

Í skýrslunni segir: „Um mitt ár 2014 ákvað fyrirtækið að bæta við nýrri starfsstöð að Stafholtsveggjum í Borgarbyggð. Athyglisvert er að þar var frá upphafi sama vandamál og í Mosfellsbæ, þ.e.a.s. of margir fuglar voru settir í húsin, þrátt fyrir að athugasemdir hafi verið gerðar vegna starfseminnar í Mosfellsbæ svo árum skipti. Þegar úttekt var gerð vegna umsóknar um starfsleyfi þá var starfsemin þegar í fullum gangi og niðurstaðan var sú að umframfjöldi fugla var 12,8 fuglar pr fm. Hinsvegar kom fram í eftirlitsskýrslu að fjöldi fugla skv. drögum að nýrri reglugerð væri 42% umfram hámarksfjölda fugla og 60% ef miðað er við reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu.“

Þrátt fyrir viðvaranir versnað meðferð dýranna: „Fyrirtækinu var veittur frestur til úrbóta, en að honum liðnum var fyrirtækið skoðað aftur (08.01.2015) og þá kom í ljós að ástandið hafði ekki batnað heldur versnað að því leyti að fleiri hús höfðu verið tekin í gagnið þar sem þéttleikinn var allt að 13,4 fuglar pr fm. Þá voru meira en tvöfalt fleiri fuglar í einu húsanna miðað við rými við fóðurlínu en gert var ráð fyrir í drögum að nýrri reglugerð. Fyrirtækinu var gefinn viðbótarfrestur til 15. febrúar 2015 til úrbóta. Fleiri athugasemdir voru gerðar sem flestar minna á athugasemdir frá starfsstöðinni í Mosfellsbæ.“

Hér er skýrslan í heild.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: