„Leigubifreiðar gegna mikilvægu hlutverki með því að veita nauðsynlega sólarhringsþjónustu fyrir ferðamenn og íbúa landsins, ekki síst þá sem ekki hafa annan ferðamáta.“
Eyjólfur Ármannsson.
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra boðar breytingar á lögum um leigubílarekstur. Hann ætlar að snúa frá lögunum sem Sigurður Ingi Jóhannsson kom á á síðasta eða þar síðasta kjörtímabili.
Eyjólfur skrifar grein í Moggann þar sem rökstyður væntanlegar breytingar.
„Í fyrsta lagi verður ekki lengur leyfilegt að reka leigubílaþjónustu án þess að tengjast leigubifreiðastöð með gildu starfsleyfi. Með þessu tryggjum við betur að allir leigubifreiðarstjórar starfi undir virku eftirliti, sem eykur öryggi farþega. Það mun jafnframt tryggja samkeppnishæfara starfsumhverfi fyrir leigubílstjóra sem sinna störfum sínum af fagmennsku.
Í öðru lagi aukum við ábyrgð leigubifreiðastöðva. Þær verða að skrá rafrænt allar ferðir sem farnar eru á þeirra vegum, bæði upphafs- og endastöð, akstursleiðina sjálfa og greiðslur farþega. Upplýsingarnar verða varðveittar í minnst 60 daga og stöðvarnar þurfa að sýna fram á árlega úttekt á stafrænu kerfunum til að tryggja öryggi gagna. Fyrir þær stöðvar sem þegar starfa af ábyrgð munu þessar breytingar ekki fela í sér miklar áskoranir, heldur undirstrika og staðfesta það góða starf sem þar er þegar unnið.
Í þriðja lagi er tekið á rétti neytenda með skýrum hætti. Leigubifreiðastöðvar verða nú að bjóða upp á einfalt og gagnsætt ferli fyrir kvartanir og ábendingar, þannig að farþegar geti tilkynnt um óeðlilega hátt verð eða slæma þjónustu. Þá verður leigubílstjórum jafnframt skylt að upplýsa farþega sérstaklega um þessi réttindi. Þessar breytingar munu auka traust almennings á þjónustunni og stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi.
Frekari breytingar eru væntanlegar síðar á árinu sem liður í heildarendurskoðun laganna, til að tryggja örugga, áreiðanlega og hagkvæma þjónustu fyrir alla. Leigubifreiðar gegna mikilvægu hlutverki með því að veita nauðsynlega sólarhringsþjónustu fyrir ferðamenn og íbúa landsins, ekki síst þá sem ekki hafa annan ferðamáta. Traust og skilvirk leigubílaþjónusta er þannig mikilvæg forsenda aukinna lífsgæða og öruggara samfélags fyrir okkur öll.“