- Advertisement -

Eyjólfur ráðherra snýr ofan af lögum Sigurðar Inga

„Leigu­bif­reiðar gegna mik­il­vægu hlut­verki með því að veita nauðsyn­lega sól­ar­hringsþjón­ustu fyr­ir ferðamenn og íbúa lands­ins, ekki síst þá sem ekki hafa ann­an ferðamáta.“

Eyjólfur Ármannsson.

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra boðar breytingar á lögum um leigubílarekstur. Hann ætlar að snúa frá lögunum sem Sigurður Ingi Jóhannsson kom á á síðasta eða þar síðasta kjörtímabili.

Eyjólfur skrifar grein í Moggann þar sem rökstyður væntanlegar breytingar.

„Í fyrsta lagi verður ekki leng­ur leyfi­legt að reka leigu­bílaþjón­ustu án þess að tengj­ast leigu­bif­reiðastöð með gildu starfs­leyfi. Með þessu tryggj­um við bet­ur að all­ir leigu­bif­reiðar­stjór­ar starfi und­ir virku eft­ir­liti, sem eyk­ur ör­yggi farþega. Það mun jafn­framt tryggja sam­keppn­is­hæf­ara starfs­um­hverfi fyr­ir leigu­bíl­stjóra sem sinna störf­um sín­um af fag­mennsku.

Í öðru lagi auk­um við ábyrgð leigu­bif­reiðastöðva. Þær verða að skrá ra­f­rænt all­ar ferðir sem farn­ar eru á þeirra veg­um, bæði upp­hafs- og enda­stöð, akst­urs­leiðina sjálfa og greiðslur farþega. Upp­lýs­ing­arn­ar verða varðveitt­ar í minnst 60 daga og stöðvarn­ar þurfa að sýna fram á ár­lega út­tekt á sta­f­rænu kerf­un­um til að tryggja ör­yggi gagna. Fyr­ir þær stöðvar sem þegar starfa af ábyrgð munu þess­ar breyt­ing­ar ekki fela í sér mikl­ar áskor­an­ir, held­ur und­ir­strika og staðfesta það góða starf sem þar er þegar unnið.

Í þriðja lagi er tekið á rétti neyt­enda með skýr­um hætti. Leigu­bif­reiðastöðvar verða nú að bjóða upp á ein­falt og gagn­sætt ferli fyr­ir kvart­an­ir og ábend­ing­ar, þannig að farþegar geti til­kynnt um óeðli­lega hátt verð eða slæma þjón­ustu. Þá verður leigu­bíl­stjór­um jafn­framt skylt að upp­lýsa farþega sér­stak­lega um þessi rétt­indi. Þess­ar breyt­ing­ar munu auka traust al­menn­ings á þjón­ust­unni og stuðla að heil­brigðu sam­keppn­is­um­hverfi.

Frek­ari breyt­ing­ar eru vænt­an­leg­ar síðar á ár­inu sem liður í heild­ar­end­ur­skoðun lag­anna, til að tryggja ör­ugga, áreiðan­lega og hag­kvæma þjón­ustu fyr­ir alla. Leigu­bif­reiðar gegna mik­il­vægu hlut­verki með því að veita nauðsyn­lega sól­ar­hringsþjón­ustu fyr­ir ferðamenn og íbúa lands­ins, ekki síst þá sem ekki hafa ann­an ferðamáta. Traust og skil­virk leigu­bílaþjón­usta er þannig mik­il­væg for­senda auk­inna lífs­gæða og ör­ugg­ara sam­fé­lags fyr­ir okk­ur öll.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: