Það er gríðarlegur innflutningur á kjöti til Íslands. Íslensk framleiðsla dregst mjög hratt saman.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ég veit að við háttvirtur þingmaður erum ekki sammála um allt, enda erum við hvor í sínum flki og þess vegna getum við tekist á hér í þingsal þó að við höfum starfað saman í ríkisstjórn um tíma,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á Alþingi þegar rætt var um búvörulög, þegar hann og Guðlaugur Þór Þórðarson skiptust á skoðunum.
Sigurður Ingi hélt áfram:
„Það er engin spurning að þegar samvinnufyrirtækin komu til þá vænkaðist hagur bændanna og byggðanna umtalsvert. Hvort það fór síðan of langt og varð of stórt; við getum tekið þá umræðu einhvern tíma seinna, ekki á einni mínútu í ræðupúlti. Það er gríðarlegur innflutningur á kjöti til Íslands. Íslensk framleiðsla dregst mjög hratt saman. Ein leið fyrir þessi fyrirtæki er að taka þátt í þeim markaði, skilja hann ekki eingöngu eftir handa fyrirtækjum, eins og ég nefndi hérna áðan, sem juku veltu sínu um einhverja sjö milljarða á milli ára, væntanlega vegna þess að innflutningur er meiri á mat. Er ekki eðlilegt að fyrirtæki bændanna taki þátt í því með einhverjum hætti? En ég er sammála háttvirtum þingmanni að þetta er svona varhugavert og það þarf að vera eitthvert regluverk í kringum þetta. Ég er ekki viss um að við séum með besta regluverkið og ég held að við eigum að horfa til Noregs um það hvernig við stýrum jafnvægi á markaði hér meira heldur en við höfum gert.“
Mér heyrist að ég og háttvirtur þingmaður séum sammála…
Þá steig Guðlaugur Þór í pontu:
„Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrir svarið og það er alveg rétt að við klárum ekki þær söguskýringar. Samvinnurekstur á alveg rétt á sér en það eru ýmsar hliðar á því sem við getum rætt hér. En ég held, alveg sama hvað mönnum finnst um málið og mér fannst háttvirtur þingmaður vera á svipuðum stað, að við séum öll sammála um, eða ég vona það, að hafa svo sannarlega öflugan íslenskan landbúnað. Hann er heimskautalandbúnaður og getur ekki keppt í verði en getur keppt í gæðum að mínu áliti, þar eru meiri gæði en í þeim landbúnaðarafurðum sem ég borða annars staðar. Aftur á móti er auðvitað veikleiki í því að afurðastöðvarnar, sem háttvirtur þingmaður er búinn að færa rök fyrir að verði að hafa ákveðna sérstöðu eins og í öðrum löndum, stundi síðan innflutning á erlendu kjöti sem þær eiga að keppa við. Mér heyrist að ég og háttvirtur þingmaður séum sammála um það. Ég er sammála því að það er nokkur asi á þessu máli sem ég er ekki fylgjandi en ég held að það sé mikilvægt í þessum sal að við ræðum þessi mál á dýptina því að það er mikið undir.“