Vegferðin sem endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.
Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, skrifar grein um þá ætlun Bjarna Benediktssonar að „leysa“ vanda ríkissjóðs vegna skuldbindinga ríkisins vegna ÍL-sjóðs. Leið Bjarna var ekki farin. Enda ófær.
„Það kostar íslenska ríkið 651 milljarð króna að leysa úr málum ÍL-sjóðs. Sú niðurstaða er betri en á horfðist og er afleiðing af aðgerðum ríkisstjórnar sem tók við fyrir innan við þremur mánuðum. Harmsaga sjóðsins teygir sig hins vegar aftur til ársins 2003 er saga ítrekaðra pólitískra mistaka. Þau fólu meðal annars í sér tilraun til að lokka erlendra fjárfesta til Íslands, eitt dýrasta kosningaloforð Íslandssögunnar og risalán úr gjaldþrota sjóði til að borga fyrir stuðning í faraldri sem var látinn endast allt of lengi,“ skrifar Þórður Snær.
„Í október 2022 hélt þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, blaðamannafund. Tilgangurinn var að ræða um hinn svokallaða ÍL-sjóð, sem flestir landsmenn vissu sennilega ekki hvað var á þeim tímapunkti. Á fundinum útlistaði Bjarni áætlanir um að knýja kröfuhafa sjóðsins til að semja um slit hans. Ef þeir myndu ekki spila með þá ætlaði hann sér að leggja fram frumvarp sem myndi knýja fram slík slit fyrir árslok 2022. Bjarni sagði að hann væri að spara ríkinu stórfé með þessari hörku sinni gagnvart kröfuhöfunum. Tap þess yrði „aðeins“ 47 milljarðar króna í stað 200 milljarða króna vegna aðgerða hans.
Þetta hljómaði sennilega vel í eyrum margra. Það breyttist hins vegar þegar fólk áttaði sig á hverjir kröfuhafarnir eru. Til einföldunar má segja að þeir séu að uppistöðu sama fólkið og Bjarni ætlaði að spara þessar stórar fjárhæðir, almenningur í landinu. Þorri skulda ÍL-sjóðs er nefnilega við 18 íslenska lífeyrissjóði. |
Lífeyrissjóðirnir brugðust, eðlilega, ókvæða við því að ráðherra í ríkisstjórn ætlaði sér að nota kylfu og gulrótar-leikjafræðina sem hafði áður verið notuð gegn erlendum vogunarsjóðum þegar verið var að gera upp eftirmál hrunsins, með þeim afleiðingum að þeir gáfu eftir mörg hundruð milljarða króna í ríkissjóð. |
Sjóðirnir sögðu að fyrirhuguð lagasetning um slit ÍL-sjóðs þar sem þeir yrðu knúnir til að taka á sig mjög stórt tap stæðust hvorki skilmála, lög né stjórnarskrá. |
Ný ríkisstjórn setti úrlausn mála ÍL-sjóðs, eins stærsta myllusteinsins utan um háls ríkissjóðs, framarlega í forgangsröð sinni. Þann 23. febrúar, um tveimur mánuðum eftir að hún tók við völdum, var tilkynnt um að viðræður við lífeyrissjóði um uppgjör bréfanna myndi hefjast. Rúmum tveimur vikum síðar var búið að ná saman og leggja fram tillögur um uppgjör. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar á þriðjudag að uppgjörið væru „góðar fréttir“ fyrir íslenskt þjóðarbú.“ Afleiðingar pólitískra mistaka fortíðar Áður en ég kafa í uppgjörstillögurnar og áhrif þeirra þá er vert að rifja upp hvað þetta ÍL-sjóðs vandamál er og af hverju við stöndum frammi fyrir því. Um er að ræða afleiðingu af því þegar þáverandi stjórnvöld ákváðu, snemma á þessari öld, að leggja niður húsbréfakerfið svokallaða og taka upp nýtt íbúðalánakerfi sem fól í sér að Íbúðalánasjóður gaf út skuldabréf sem nutu einfaldrar ríkisábyrgðar en sem sjóðurinn sjálfur mátti ekki greiða upp fyrr en þau voru komin á gjalddaga, sem eru allt til ársins 2044. Þeir sem Íbúðalánasjóður lánaði svo áfram gátu greitt upp lánin áður en kom að gjalddaga og í miðjum klíðum var ákveðið að það yrði ekkert uppgreiðslugjald. Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir að Íbúðalánasjóður, í eigu og á ábyrgð ríkisins, skuldbatt sig til að greiða af þessum skuldabréfaflokkum út líftíma þeirra. Þeir sem tóku lán hjá Íbúðalánasjóði, sem fjármögnuð voru með útgáfu skuldabréfaflokkanna, gátu hins vegar greitt þau upp og fært lánin sín annað ef hagstæðari kostur bauðst. Þá sat Íbúðalánasjóður eftir með það að þurfa að greiða niður lánin sem höfðu verið tekin til að fjármagna íbúðalán viðkomandi, en án vaxtatekna til að standa undir þeim greiðslum. Einn megintilgangurinn með þessum bréfum var að gera þau áhugaverð fyrir erlenda fjárfesta. Áhugi erlendra aðila á þessum skuldabréfum reyndist hins vegar lítill sem enginn. Þess í stað keyptu íslenskir lífeyrissjóðir þau. |