Ekki sami hagvöxtur um land allt
- Sigurður Ingi segir fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sýna athafnaleysi og vera hægri stefnu.
„Við teljum að þetta sé of aðhaldssöm stefna. Við teljum að hún sýni athafnaleysi sem er líka pólitík hægri mennskunnar. Við munum því segja nei við þessari stefnu,“ sagði hann.
Hann sagði okkur horfa fram á fimm ár í miklu aðhaldi á sama tíma og allir stjórnmálaflokkar, líka þeir sem sitja í ríkisstjórn, hafi undirbúið og undirbyggt miklar væntingar meðal landsmanna um að nú loks verði staðið við fjárfestingar í innviðum landsins. „Þessi stefna er að mati okkar Framsóknarmanna ekki sú skynsamlega blandaða hagstjórn sem þarf að beita á þessum tíma. Við gerum okkur vel grein fyrir að við erum á erfiðum stað í hagsveiflunni. Við verðum hins vegar að fara í nauðsynlegar fjárfestingar.“