Hörmulegur árangur síðustu ríkisstjórnar
Þorgeir Eyjólfsson eftirlaunamaður skrifar í Moggann. Hér er seinni hluti greinarinnar:
Hvað veldur risavöxnum trúnaðarbresti kjósenda og flokkanna sem mynduðu fráfarandi ríkisstjórn? Svarið felst í hörmulegum árangri í flestum málaflokkum. Gildir þá einu hvar borið er niður:
- 1. Ríkisfjármálin hafa verið tekin lausatökum á annan áratug og frá 2017 hafa útgjöldin vaxið um liðlega 40% á föstu verðlagi. Afleiðinguna uppskar almenningur með hækkun verðlags og vaxta með neikvæðum áhrifum á afkomu heimilanna.
- 2. Húsnæðismálin sátu á hakanum í tíð síðustu ríkisstjórnar og nú er svo komið að nánast er útilokað fyrir unga fólkið að koma sér þaki yfir höfuðið án aðstoðar sinna nánustu.
- 3. Í málefnum innflytjenda auðnaðist ríkisstjórninni ekki að ná samstöðu um að haga löggjöf í málaflokknum með hliðstæðum hætti og hjá nágrannaþjóðum á Norðurlöndum.
- 4. Notkun óreyndra mRNA-bóluefna, sem rannsóknir sýna að hafi leitt til veikinda þúsunda og ótímabærs andláts hundraða, hafa ekki orðið til að auka tiltrú landsmanna á stjórnvöldum.
- 5. Áfram hallaði undan fæti í tíð síðustu ríkisstjórnar í menntamálum, sem endurspeglast í hækkuðu hlutfalli drengja og stúlkna sem búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi samkvæmt alþjóðlegum samanburði PISA.
- 6. Samgöngumál voru látin drabbast og eru í „miklum ólestri“, svo notuð sé lýsing fyrrverandi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins.
- 7. Málefni eldri borgara voru látin sitja á hakanum í stjórnartíð flokkanna. Þannig var ekki hirt um að fjölga hjúkrunarrýmum í neinum mæli, auk þess sem tekjumörkum bóta almannatrygginga var haldið svo til óbreyttum árum saman. Eldri borgurum sem bæta vildu afkomuna með þátttöku á vinnumarkaði er hegnt fyrir sjálfsbjargarviðleitnina með lækkun bóta almannatrygginga. Umhyggjuleysi fráfarandi ríkisstjórnar um afkomu og aðbúnað eldri borgara á líklega hvað stærstan þátt í fylgishruni stjórnarflokkanna.
- 8. Að láta ráðherra Vinstri grænna komast árum saman upp með að halda virkjun fallvatna í heljargreipum aðgerðarleysis verður þjóðinni dýrkeypt. Afleiðingar aðgerðarleysisins í orkumálum koma fram á næstu árum en sýnishorn þess sem í vændum er má sjá á 16% hækkun raforkuverðs til heimila í viðskiptum við HS Orku umfram hækkun vísitölu neysluverðs á 12 mánaða tímabili frá nóvember 2023.
Ofangreind upptalning á slakri frammistöðu ríkisstjórnarflokkanna, sem er hvergi nærri tæmandi, kann að skýra flenginguna í alþingiskosningunum. Það var erfið ákvörðun 30. nóvember sl. að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn í fyrsta sinn á liðlega 50 árum. Vonandi nær flokkurinn vopnum sínum á komandi landsfundi. Til að það megi takast verður að ganga tryggilega frá endurnýjaðri og trúverðugri stefnu sem m.a. tekur á afkomu og aðbúnaði aldraðra með markvissum hætti og aðgerðum sem bæta stöðu fyrstu kaupenda á húsnæðismarkaði. Að ný forysta hafi markaða stefnu flokksins til hliðsjónar við ákvarðanatökur þannig að unnt verði að kjósa flokkinn að nýju.