„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fv. forsætisráðherra, hefur boðað að hann taki ekki kosningu á Alþingi eftir að hafa setið þar í 21 ár. Hann gefur ekki kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á komandi landsfundi eftir að hafa leitt flokk sinn í 16 ár, þar af 11 ár í ríkisstjórn, bæði á erfiðum umbrotatímum hrunsáranna og mestu uppgangstímum þjóðarinnar, sem á eftir sigldu og hann átti ríkan þátt í að skapa.“
Þannig skrifar Davíð Oddsson í leiðara dagsins. Athygli vakti að ekkert var skrifað um Bjarna og leiðarlokin hans í leiðara gærdagsins. Jæja, betra er seint en aldrei. Lesum áfram:
„Þegar svo öflugur forystumaður kjölfestustjórnmálaflokks, einn helsti áhrifamaður landsins, kveður eftir svo langan feril verða kaflaskil.
Bjarni situr áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins fram á landsfund, þegar nýr formaður verður kjörinn á stærstu pólitísku samkundu landsins. Hins vegar er ekkert greypt í stein um hvenær það verður.“
Allt er mest og best í skrifum Davíðs; „öflugur forystumaður kjölfestustjórnmálaflokks“ „á stærstu pólitísku samkundu landsins“.
„Í fyrra var boðað til landsfundar í febrúarlok. Það er óvenjulegur tími og allra veðra von, en markmiðið að slá taktinn fyrir alþingiskosningar, hvort heldur þær yrðu um vor eða haust,“ skrifar Davíð og heldur áfram:
„Atburðarásin varð önnur og kosið í nóvember, svo af þeim ástæðum liggur ekki lengur á landsfundi.
Vetrarveðrin varða fleiri en landsfundarfulltrúa, því formannsframbjóðendur þurfa að ferðast um öll kjördæmi til að kynna sig og áherslur sínar.
Af þeirri ástæðu kynni að vera ráð að fresta landsfundi til vors, en svo má minna á að á næsta ári eru sveitarstjórnarkosningar, svo að haustfundur gæti komið í betri þarfir.“
Helstu rökin fyrir því að fresta landsfundi eru þó þau að vanda þarf valið; við slík kaflaskil er ekki sjálfstætt markmið að hespa af kjör formanns stærsta stjórnmálaafls þjóðarinnar og enginn sjálfgefinn í embættið.