- Advertisement -

Við erum brennd af sleifarlagi

Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, talaði í dag um fiskeldi og Matvælastofnun og þá staðreynd að einstaka starfsmenn hafa fjárhagslegan ávinning af eigin ráðgjöf.

„Fréttir greindu frá málefninu í gær og umfjöllun heldur áfram. Matvælastofnun tengist umræðunni með aðkomu tveggja dýralækna fisksjúkdóma við starfsemi fiskeldisfyrirtækja, að þessi tengsl séu ekki með eðlilegum hætti og kvartað hefur verið til umboðsmanns Alþingis. Það er afleitt fyrir unga og umdeilda atvinnugrein. Matvælastofnun hefur á þessu sviði lögbundnar eftirlitsskyldur og kvörtunin gengur út á að dýralæknar fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun séu jafnframt milliliðir, söluaðilar lyfja til fiskeldisstöðva þar sem þeir eiga að gegna óháðu eftirlitshlutverki. Það eftirlit getur m.a. falist í umsögn um stækkunaráform, að heilbrigðisreglur séu virtar og að grípa til viðeigandi ráðstafana ef upp kemur smit í fiskeldisstöð.“

„Aðgerðirnar geta verið íþyngjandi, svo sem afturköllun rekstrarleyfis sem er alvarlegasta aðgerðin,“ sagði Guðjón. „Sé fiskeldisstöð kaupandi að bóluefni hjá sama aðila geta risið álitaefni um hæfi hans að mati umboðsmanns Alþingis, vegna fjárhagslegra hagsmuna sem hugsanlegir eru. Mögulegt sé að með vaxandi fiskeldi geti notkun bóluefnis aukist og hagsmunirnir geti því orðið verulegir. Í þessu tiltekna dæmi eru gefnar óljósar upplýsingar um hvernig þessum viðskiptum og hagsmunum er fyrir komið og það er slæmt,“ sagði hann.

Og hann sagði að endingu: „Íslendingar eiga að gera strangar og skýrar kröfur til eftirlits að öllu leyti, ekki síður en Norðmenn og Svíar, og fara faglega og varlega í uppbyggingu með klára sýn. Eðlilegt og alvöruafgjald er hluti af því. Brennt barn forðast eldinn. Við erum brennd af sleifarlagi í auðlindastjórnun. Á þessu þarf Alþingi að taka af skarið.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: