- Advertisement -

Logandi skip Sjálfstæðisflokksins

Orð Þorgerðar Katrínar um „óstjórntækan“ flokk í upphafi kosningabaráttunnar hafa því heldur betur reynst spádómsorð. Í dag er ástandið einfaldlega þannig að flokkurinn virðist ófær um að stjórna sjálfum sér.

Össue Skarphéðinsson.

Minn fyrrverandi ritstjóri, Össur Skarphéðinsson, settist við lyklaborðið. Þetta varð úr:

„Þorgerður Katrín, sem flestum betur þekkir innvolsið í Sjálfstæðisflokknum frá því hún var varaformaður hans um skeið, sagði snemma í kosningabaráttunni að Sjálfstæðisflokkurinn væri „óstjórntækur.“ Þar vísaði hún til þess að þrjár hálfsjálfstæðar fylkingar sem tengjast þremur vonarpeningum til formennsku í flokknum, þeim Guðlaugi Þór, Áslaugu Örnu og Þórdísi Kolbrúnu, hafa um hríð tekist á í iðrum flokksins til að skapa sér stöðu fyrir væntanlegt formannskjör.

Að auki hafa nokkrir sterkir forystumenn á hægri vængnum langa hríð verið í einskonar uppreisn gegn forystunni, spéfuglinn og ólíkindatólið Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, sem þekktastur er af afrekum sínum við útgáfu hvalveiðileyfa og loks Óli Björn Kárason, sem stilltist þó allmjög eftir að hann varð orðaður við ritstjórastól á Mogganum.

Með allt þetta lið – innmúrað og innvígt í grasrót og stofnanir flokksins – í ýmist sýnilegri eða ósýnilegri andstöðu við formann og varaformann, var fullkomlega rökrett hjá Þorgerði Katrínu að lýsa Sjálfstæðisflokknum sem „óstjórntækum“. Verk hans í ríkisstjórn staðfesta þau.

Orð hennar hafa svo verið undirstrikuð rækilega í kjölfar þess að ný ríkisstjórn tók við völdum. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur siglir nú lygnan sjó þar sem helstu fréttir eru einkum af samstöðu hins kvenlega þríeykis, jólasöngvum á ríkisstjórnarfundum, og gagnkvæmum ástarjátningum í fjölmiðlum. Á meðan eru helstu miðlar – að Morgunblaðinu frátöldu – með dagleg „skúbb“ af átökum innan Sjálfstæðisflokksins.

Í dag logar skip Sjálfstæðisflokksins þannig stafna á milli eftir að út láku leynileg áform forystu flokksins um að fresta því að landsfundur flokksins, sem átti að vera í febrúar, verði haldinn. Víðtæk og vaxandi andstaða virðist við þau áfom innan flokksins.

Bessí Jóhannsdóttir, formaður eldri Sjálfstæðismanna fer daglega hamförum á Vísi og segir hverjum sem heyra vill að það þurfi uppgjör í Sjálfstæðisflokknum. Það uppgjör virðist ekki síst eiga að beinast að forystunni, Bjarna og Þórdísi Kolbrúnu. Spjóti Bessíar var augljóslega beint að þeim í heitstrengingum um að „forystan“ myndi ekki komast upp með frestunina. Margir þingmenn flokksins hafa svo tekið undir það.

Athygli vekur að í þeim hópi er formannskandídatinn Áslaug Arna, sem segir eðlilegt að halda landsfund eftir þau vonbrigði sem niðurstaða kosninganna var flokksfólki. Helsti lautinant Guðlaugs Þórs, Diljá Mist, þingmaður og fyrrum aðstoðamaður hans í utanríkisráðuneytinu, tekur í svipaðan streng. Sú eina af kandídötum til formanns sem þegir er sú sem svartstakkarnir kringum Bjarna hafa valið sem arftaka hans, Þórdís Kolbrún Reykdal Gylfadóttir. Hún á nefnilega mest undir að landsfundi verði frestað. Reyndar er hún helsta ástæða þess að svartstakkar Bjarna vilja fresta honum sem lengst.

Þórdís Kolbrún kom illa löskuð úr prófkjörinu í Kraganum. Hún ákvað með litlum fyrirvara og með samþykki Bjarna Ben að flýja úr kjördæmi sínu, þar sem hún var orðin landlaus af ýmsum ástæðum, og heimamenn töldu einsýnt að hún myndi tapa efsta sætinu í prófkjöri. Þau ákváðu því að hún myndi í skjóli Bjarna bjóða sig fram í annað sæti í Kaganum, sem skipað var af Jóni Gunnarssyni, sem líklega var þá vinsælasti þingmaður Sjálfstæðismanna.

Þórdís Kolbrún, sem áður hefur tekið illa undirbúnar ákvarðanir, samanber de facto slitin á stjórnmálasambandi við Rússland, gerði þau hrapallegu mistök að ræða framboð sitt ekki við Jón. Ekki er óhugsandi að hann hefði af ýmsum ástæðum verið til í að láta nótt sem nam, og draga sig einfaldlega í hlé. Af framboði varaformannsins gegn honum frétti hann hins vegar einsog aðrir – úr fjölmiðum. Framboð Þórdísar Kolbrúnar var því hrein atlaga að Jóni Gunnarssyni og olli mikilli úlfúð innan kjördæmisins. Það speglaðist ma. í því að í prófkjörinu fékk Þórdís Kolbrún langflestar útstrikanir.

Jón Gunnarsson, sem er skapríkur og stoltu maður, reiddist þessu mjög, og stuðningsmenn hans. Þau sár eru ógróin. Jón og hans lið hefur áður sýnt, hversu öflugt það er í Sjálfstæðisflokknum um land allt. Það kom berlegast fram þegar hann gekk fram fyrir skjöldu og safnaði liði sem bjargaði Bjarna með naumindum á landsfundi þegar Hanna Birna var komin með undirtökin.

Kandídatúr Þórdísar Kolbrúnar mun því mæta harðvítugri andstöðu og í ljósi vaxandi styrks Áslaugar Örnu er að óbreyttu erfitt að sjá hana sigra í formannskjöri án þess að skilja eftir sig blóðrisa flokk, klofinn í herðar niður. Þetta skýrir laumuspil forystunnar um að fresta landsfundi. Það þarf að vinna tíma til að hægt sé að lægja öldur og vinna stuðning við konuna sem svartstakkar Bjarna hafa valið til arftökunnar.

Óhætt er því að segja að dýr muni Jón Gunnarsson allur reynast varaformanninum sem hrinti honum úr sæti án þess að sýna honum þá virðingu að segja af framboði sínu áður en hann frétti það í fjölmiðlum.

Orð Þorgerðar Katrínar um „óstjórntækan“ flokk í upphafi kosningabaráttunnar hafa því heldur betur reynst spádómsorð. Í dag er ástandið einfaldlega þannig að flokkurinn virðist ófær um að stjórna sjálfum sér.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: