Vilhjálmur Birgisson skrifaði:
Ég verð að spyrja á hvaða vegferð eru bæjaryfirvöld hér á Akranesi hvað varðar gríðarlegar hækkanir á lóðaverði? Og ég spyr einnig hvernig í ósköpunum stendur á því að bæjaryfirvöld hafa yfirfært óskapnaðinn frá Reykjavíkurborg með því að taka upp nýtt byggingarréttargjald eða svokallað innviðagjald? En þetta nýja innviðagjald sýnist mér nema þetta frá 50% upp í rúm 60% af gatnagerðagjaldinu.
Ég veit um verktaka sem voru búnir að festa kaup á lóð sem átti að kosta 5,8 milljónir fyrir nokkrum misserum síðan en þeir ákváðu að skila lóðinni aftur til bæjarins. Núna er þessi sama lóð auglýst á 12,8 milljónir og því til viðbótar leggst hið nýja innviðagjald á sem nemur 6,3 milljónum. Með öðrum orðum lóðin hefur hækkað um 120% á nokkrum mánuðum ásamt því að sett hefur verið á nýtt innviðagjald sem nemur 6,3 milljónum. Samtals hefur þessi lóð því hækkað úr 5,8 milljónum í 19,1 milljón eða 229,3% hækkun!
Það er sorglegt að sjá þessa græðgisvæðingu sem hefur heltekið sveitarfélög þegar kemur að lóðaverði og sem annað dæmi þá liggur fyrir að í nýja hverfinu eða nánar til tekið í Skógarlundi 13 þar sem hægt verður að reisa 5 íbúðir. Þar kosta gatnagerðagjöldin 49,9 milljónir og hið nýja byggingarréttargjald 31,8 milljón ásamt fyllingu vegna gatnagerðar 3,4 eða samtals 81,5 milljón eða 17 milljónir á íbúð. Þá á vertakinn eftir að taka grunninn sem kostar um 25 milljónir þannig að samtals lóðaverð og uppgröftur á grunni kostar 106,5 milljónir eða 21,3 milljónir áður en byrjað er að byggja viðkomandi íbúðir!
Það er sorglegt að sjá og verða vitni að því að Reykjavíkurruglið hvað varðar lóðaverð og innviðargjöld hefur núna hafið innreið sína hingað upp á Akranes.
Þetta er ótrúlegt að horfa upp á þessa stökkbreytingu á lóðaverði sem mun ekki gera neitt annað en að gera almenningi og sérstaklega ungu fólki afar erfitt að komast inn á húsnæðismarkaðinn.
Mér finnst algjört lágmark að bæjaryfirvöld útskýri hví í ósköpunum verið sé að leggja þessar auka skattaálögur á bæjarbúa sem gera ekkert annað en að hækka húsnæðisverð því að sjálfsögðu eru það engir aðrir en húsnæðiskaupendur sem munu á endanum greiða allar þessar hækkanir í formi hærra íbúðarverðs. Það er í það minnsta stórundarlegt að sjá þessar tugprósenta hækkanir á sama tíma og Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi tilkynnir að lóðaverð í hans sveitarfélagi sé á kostnaðarverði!
Ég ætla að halda áfram að vera „leiðinlegur“ og brýna fyrir bæjaryfirvöldum að það er ósjálfbært að byggja og byggja íbúðarhúsnæði ef ekki er hugað samhliða að því að laða að nýja kraftmikla atvinnustarfsemi því án aukinnar verðmætasköpunar er ekki hægt að viðhalda eða auka velferð bæjarbúa.
Við bæjaryfirvöld vil ég segja, í guðanna bænum spýtið nú í lófanna og fáið fyrirtæki til að hefja starfsemi hér á Akranesi enda höfum við alla burði og innviði til þess að fá stórar og öflugar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar inní bæinn okkar.
Við búum í dásamlegu samfélagi með eins og áður sagði alla innviði uppá 10 og nægir þar að nefna framhalds- grunn-og leikskóla, íþróttaaðstöðu og að ógleymdu frábæru sjúkrahúsi.
Eitt er víst að við löðum alls engan hingað á Akranes með því að auka álögur á fólk og fyrirtæki svo mikið er víst. Nú þarf að taka sig saman í andlitinu og snúa þessum svefnbæ í eitt af eftirsóknarverðustu sveitarfélögum landsins, við höfum alla burði og getu til þess. Eina sem þarf er kraftur, dugnaður og þor!