„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Ég get rétt ímyndað mér að það verði erfitt fyrir marga.“
Þetta hefur Vísir eftir Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Bjarni virðist ekki skilja hvað kjósendur voru að segja Bjarna, flokknum og Þórdísi Kolbrúnu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki áður fengið verri kosningu og bæði formaðurinn og varaformaðurinn fengu fleiri útstrikanir en nokkur annar frambjóðandi. Tvö gul jafngilda einu rauðu. Það er brottrekstur.
Fyrr í fréttinni segir: „Bjarni segist tilbúinn að leiða Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu, allavega fyrstu mánuðina, ef til þess kemur. Sjálfstæðismenn koma saman á landsfundi í febrúar og flestir gera ráð fyrir því að nýr formaður taki við, ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst ekki í ríkisstjórn.“
Allavega fyrstu mánuðina? Jæja, þó það. Hér er Bjarni að kveikja ljós. Hann ætlar þá að hætta fljótt verði hann og flokkurinn í stjórnarandstöðu.
En hvað gerir umdeild Þórdís K.R. Gylfadóttir? Ætlar hún að taka við af Bjarna? Batnar eitthvað við það?