Jón Trausti Reynisson skrifaði þetta á Facebook fyrir augnabliki:
„Fyrir nokkrum árum var ég í spjallþætti ásamt Stefán Einari Stefánssyni, sem nú er sjálfur orðinn alræmdur spjallþáttarstjórnandi með beittustu spurningar sem heyrast hér á landi. Stefán Einar færði fyrir því rök að umfjöllun Stundarinnar um gögn sem sýndu viðskipti og hagsmunaárekstra Bjarna Benediktssonar ættu ekki erindi í þjóðfélagsumræðuna, en ég var eðlilega ósammála. Nokkrum dögum síðar var sett lögbann á umfjöllunina, sem síðar var snúið rækilega við fyrir dómstólum. Mér varð á í hléi að undrast afstöðu Stefáns Einars og spyrja hann af einlægni: „Ertu ekki viðskiptasiðfræðingur?“ Þar gekk mér ekkert illt til heldur vildi skilja hvers vegna hann teldi þá stöðu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafði verið í, með stórfelld einkaviðskipti með bankana samhliða beinni aðkomu að vanda þeirra sem kjörinn fulltrúi í umboði almennings, viðskiptasiðfræðilega í lagi og það svo mikið að ekki þyrfti að ræða þetta meira í samfélaginu. Við spurninguna var eins og myrkvaði skyndilega yfir Stefáni Einari og hann reiddist, þar sem hann taldi titilinn hafa verið notaðan gegn sér.
Eftir þáttinn tók ég eftir því að Stefán Einar hafði blokkað mig á Facebook og þar með synjað mér frekari aðgangi að ásjónu hans og boðskap. Nú sé ég stundum ummerki um átök Stefáns Einars við fólk í spjallhópum, að fólk er að verjast stóryrðum sem engin sjást eða heyrast, eins og ég verði vitni að draugagangi. Síðustu misseri hefur þó birt yfir þar sem ég verð þess aðnjótandi að sjá auglýsingaherferðir á mbl.is um Stefán Einar sem harðvítugan þáttarstjórnanda og fylgismann opinnar umræðu. Hann hefur náð að staðsetja sig sem óskammfeilnasta spyril landsins og svífst einskis í því að koma fólki úr jafnvægi með því að bera upp á það gamlar syndir og eigna því ýmislegt, til dæmis að styðja hryðjuverkafólk, hækka skatta á einstaka stéttir og vita ekki eitt og annað, en mismikið eftir því hvar fólk er staðsett í stjórnmálum. Auðvitað fagnar maður því að áður viðkvæmt fólk gerist skrápþykkir merkisberar gagnrýninnar fréttamennsku. En þá verður jafnt yfir öll að ganga. Hlekkur í ummælum.“