- Advertisement -

Viljum við húsnæðiskerfi sem þjónar bröskurum og okrurum eða kerfi sem tryggir almenningi ódýrt og öruggt húsnæði?

Gunnar Smári Egilsson:

Við erum að koma út úr hnignunarskeiði þar sem sú delluhugmynd náði flugi að auðvaldið væri í raun að gæta almannahags en almannavaldið væri ógn við frelsi og lífskjör almennings

Fyrir mér snúast þessar kosningar um hver á fara með ríkisvaldið. Ætlum við að láta ríkisvaldið áfram þjóna hagsmunum fjármagns og stórfyrirtækja, eins og raunin hefur verið undanfarna áratugi. Eða ætlum við að láta ríkisvaldið þjóna almannahag. Viljum við byggja upp samfélag í takt við vilja, vonir og væntingar almennings eða ætlum við láta undan frekju og yfirgangi hinna fáu og auðugu og láta Alþingi afgreiða á færibandi kröfur þeirra. Þetta er eiginlega spurning um hvort við viljum halda áfram að breyta Íslandi í verstöð hinna ríku, þar sem allar reglur og öll kerfi snúast um að auka enn við auð þeirra. Eða hvort við viljum beita ríkisvaldinu til að bæta hag alls almennings og láta grunnkerfi samfélagsins þjóna venjulegu fólki.

Viljum við húsnæðiskerfi sem þjónar bröskurum og okrurum eða kerfi sem tryggir almenningi ódýrt og öruggt húsnæði? Viljum við heilbrigðiskerfi sem er rekið í hagnaðarskyni og mun fljótt enda í höndum auðhringja, eða viljum við kerfi sem tryggir öllum almenningi gjaldfrjálst aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu? Viljum við skólakerfi sem mismunar nemendum eftir fjárhag og uppruna eða viljum opið og sterkt kerfi þar sem allir geta sótt sér menntun?

Sósíalísk verkalýðsbarátta færði almenningi völd í okkar heimshluta á síðustu öld, svo mikil að ríkisvaldið lét undan kröfum hennar og aðlagaði lög og grunnkerfi samfélagsins að væntingum almennings, tryggði almenningi meiri réttindi og betri lífskjör en fólk hefur haft nokkru sinni í sögunni.

Segja má að auðvaldið hafi í dag náð undir sig ríkisvaldinu, að það þjóni fyrst og fremst hinum fáu og auðugu en alls ekki meginþorra almennings.

Lykillinn að þessari framþróun var að ríkisvaldið var skilgreint sem almannavald. Og fólk vissi að það þurfti að vera sterkt og framsýnt til að ná árangri, það þurfti að vera raunverulegt afl til að geta ráðið við ógnarafl auðsins. Framþróun okkar samfélaga byggði á öflugu almannavaldi sem beitt var fyrir hag fjöldans gegn auðvaldinu, sem aðeins skilur hagsmuni hinna fáu.

Sósíalistaflokkurinn er þá kostur fyrir þig.

Við erum að koma út úr hnignunarskeiði þar sem sú delluhugmynd náði flugi að auðvaldið væri í raun að gæta almannahags en almannavaldið væri ógn við frelsi og lífskjör almennings. Og almenningur freistaði þess að gefa eftir völd sín svo að auðvaldið náði undir sig auði almennings, eignum, auðlindum og ákvörðunum. Segja má að auðvaldið hafi í dag náð undir sig ríkisvaldinu, að það þjóni fyrst og fremst hinum fáu og auðugu en alls ekki meginþorra almennings.

Þetta sést á afgreiðslu Alþingis, sem í dag afgreiðir lög sem samin eru af hagsmunasamtökum hinna fáu ríku en er ófært um að færa almenningi nokkrar vernd gagnvart auðvaldinu. Og þetta sést á stefnu stjórnvalda sem í öllum veigamiklum málum er þvert á vilja mikils meirihluta fólks. Við lifum tíma þar sem ríkisvaldinu er beitt til að færa auðfólki allar auðlindir landsmanna, leyfa því að kaupa upp landið og samfélagið.

Kosningarnar ættu að snúast um þetta. Ert þú ánægð(ur) með þessa þróun? Ef svo er geturðu kosið þá flokka sem hafa stutt þróun samfélagsins í átt að alræði auðvaldsins, þjóðskipulagi þar sem þau sem hafa náð að sölsa undir sig eignum og auð almennings drottna yfir öllu. Ef þú ert meðal þeirra 69 prósenta sem finnst samfélagið vera á rangri leið ættirðu að kjósa afgerandi breytingu, kjósa breytt Alþingi.

Sósíalistaflokkurinn er þá kostur fyrir þig.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: