„Samfylkingin vill velta við hverjum steini og byrja á tiltekt í efsta laginu með fækkun ráðherra og ráðuneyta,“ segir í Moggagrein Kristrúnar Frostadóttur.
Hér kemur svo kaflinn um hvernig vextir verði negldir niður:
„Svona neglum við niður vextina með Samfylkingu.
Við vitum að Sjálfstæðisflokkur hefur hækkað vexti, hækkað verð og hækkað skatta á hinn almenna mann frá árinu 2013. Þar hefur ekkert breyst þó að nú sé reynt að lofa gulli og grænum skógum. En stjórnmálamenn sem segjast geta lækkað skatta og skorið hratt og mikið niður, á sama tíma og þeir lofa bættri þjónustu, aukinni fjárfestingu og lægri skuldum – og um leið hríðlækkandi verðbólgu og vöxtum – þeir eru ekki að segja satt. Enda væri það of þægilegt til að geta verið satt.
Valkostirnir í komandi alþingiskosningum eru skýrir. Annars vegar er glundroðastjórn til hægri – sem er ekki ávísun á neitt nema áframhaldandi hallarekstur og óstjórn í efnahags- og velferðarmálum.
Hins vegar er val um nýtt upphaf og sterka ríkisstjórn með Samfylkingu sem neglir niður vextina og verðbólguna. Það er öruggasta leiðin til að lækka kostnað heimila og fyrirtækja og hefjast handa við að laga Ísland.“