Stjórnmál
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur hækkað kostnað heimilanna. Með verðbólgu, vöxtum og húsnæðisverði – og með því að þyngja skattbyrði venjulegs vinnandi fólks, jafnt og þétt, frá árinu 2013. Það er löngu ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn kann ekki að fara með fé og forysta flokksins er vanhæf til að stjórna,“ segir meðal annars í grein sem Kristrún Frostadóttir skrifar í Mogga dagsins.
„Leyfum Sjálfstæðisflokknum ekki að afvegaleiða umræðuna og beina sjónum frá eigin vanhæfni. Nú skulum við standa saman og svara þeim af festu. Og gleymum því ekki hve illa Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist fólkinu í landinu á liðnu kjörtímabili,“ segir í greininni.
Samfylkingin ræðst af afli gegn Sjálfstæðisflokknum og hans formanni, Bjarna Ben:
„Fyrir síðustu kosningar lofaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lágum vöxtum. Það er skemmst frá því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn sveik loforðin – og rústaði þannig plönum bæði heimila og fyrirtækja.
Í fyrra greiddu heimilin í landinu 40 milljörðum meira í vexti en árið 2021. Þetta er það sem við höfum kallað ofurskattinn á ungt fólk og alla sem skulda. Sem dæmi hefur greiðslubyrði fólks af meðalláni hækkað um 150 til 350 þúsund krónur í hverjum mánuði, eftir því hvort lánið er verðtryggt eða ekki.
Þetta gerðist vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn missti alla stjórn á efnahagsmálunum. Verðbólga fór á flug og vextir hækkuðu – en fráfarandi ríkisstjórn reyndist fullkomlega vanhæf til að ná stjórn á stöðunni. Seðlabankinn var skilinn einn eftir og látinn hækka vextina, og því fór sem fór: Verðbólgan var brotin á baki hins almenna launamanns.
Munum þetta þann 30. nóvember.“
Grein Kristrúnar er lengri en það sem birtist hér. Að lokum birtir Miðjan þennan kafla ræðurnar:
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann kann ekki að fara með fé, og forysta flokksins kann ekki að stjórna fyrir fólkið í landinu. Þau eru ekki með neitt plan og boða ekki neinar breytingar. En við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hækkað vexti, hækkað verð og hækkað skatta á hinn almenna mann.
Verður þetta gleymt og grafið þann 30. nóvember – eða munu kjósendur veita Sjálfstæðisflokknum verðskuldaða ráðningu?
Senn fær þjóðin tækifæri til að svara fyrir sig með kjörseðlinum.“