Sigmar Guðmundsson alþingismaður skrifaði:
Fyrir fáeinum vikum hringdi faðir tveggja ungra manna í mig. Hann heitir Ásgeir Gíslason. Ásgeir bað mig um að koma á framfæri því sem gerðist í hans fjölskyldu í ágúst. Hann og fjölskylda hans vill rjúfa þá þögn sem oft ríkir um fólkið okkar sem deyr af völdum fíknisjúkdómsins.
Þann níunda ágúst síðastliðinn fékk Ásgeir þá harmafregn að sonur hans, Jón Kjartan Einarsson, hefði látist í íbúð sinni í Kópavogi. Hann hafði átt við vímuefnavanda að stríða og andlátið má rekja til ofskömmtunar efna. Jón Kjartan var fæddur árið 1990.
Bróðir Jóns Kjartans, Sindri Geir Ásgeirsson sem fæddur er árið 1997, bjó með honum í íbúðinni í Kópavogi. Hann átti líka við vímuefnavanda að stríða. Hálfum sólahring síðar fannst hann látinn í sömu íbúð. Bræðurnir féllu frá vegna ofskömmtunar með 12 tíma millibili. Ekkert bendir til annars en að um óhapp, en ekki viljaverk, hafi verið að ræða.
Jón Kjartan fór í meðferð rétt fyrir síðustu áramót. Að sögn föður hans var bið eftir áframhaldandi meðferð og Jón Kjartan féll skömmu síðar. Sindri Geir var líka að reyna að sækja bata. Hann hafði nokkrum mánuðum fyrr óskað eftir því að komast í meðferð en það var átta mánaða bið. Bræðurnir hvíla í sama leiði og móðir þeirra sem lést úr fíknisjúkdómnum fyrir fjórum árum.
Hér er rétt að nefna að aðstandendur bræðranna vilja ekki benda fingri á neinn. Þau eru ekki í leit af sökudólgi. Þau vilja einfaldlega að samfélagið geri betur til að styðja við alla þá sem glíma við fíkn. Þau vilja bjarga mannslífum.
Ég skrifaði grein um þetta og það vanmat sem er í samfélaginu þegar kemur að afleiðingum þessa sjúkdóms. Hana má lesa í fyrstu athugasemd. Við gerðum frábærlega með því að reisa varnargarða um byggðina í Grindavík. Af hverju getum við ekki reist stærri og öflugri varnargarða utan um allt fólkið okkar sem þjáist og fellur frá vegna fíknar? Í stað þess að gera það þá lokum við Stuðlum og SÁÁ yfir sumarmánuðina. Við verðum að gera betur.