- Advertisement -

Vinstri græn á mörkum útrýmingar

Marinó G. Njálsson:

Líklega færa vinstrimenn sig yfir á Sósíalistaflokkinn, enda er hann eina von þeirra um að harður vinstriflokkur verði á þingi eftir kosningar.

Stjórnmál Kosningabaráttan er hafin og fyrsta stóra útspilið er hjá VG. Það felst í að reyna að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn eins og hægt er í þeirri von að flóttamenn úr flokknum snúi heim aftur.

Eftir að hafa nánast lofsungið Sjálfstæðisflokkinn í 7 ár, þá á að bjarga andlitinu og VG á 45 dögum eða svo. Verð að viðurkenna, að þetta er ekki trúverðugt. Eins og Svandís hafi farið inn á Þjóðskjalasafn og fundið neðst í rykugum bunka gleymdra stefnuskráa, hverjar voru hugsjónir VG sem urðu til þess að flokkurinn var stofnaður. Síðan hafi hún fundið töfraefni sem eyðir pólitískum óþef og heldur að það sé nóg til að kjósendur gleymi síðustu tveimur kjörtímabilum.

Framganga VG síðan 30. nóvember 2017 hefur ekkert endilega vakið furðu mína. Flokkurinn hafði sýnt, þegar hann var í stjórn árin 2009-2013, að hann var mjög hallur undir fjármagnsöflin og var fljótur að hlaupa undir bagga með ráðandi stéttum. Skítt með almenning og lífeyrisþega, sem fengu alla reikninga senda beint til sín þá enda áttu kröfuhafar þrotabúa stjórnarskrár varinn eignarrétt á óskilgreindum eignum þrotabúanna. (Það er ekki hægt að ljúga þessu, en þessu hélt þáverandi formaður VG fram.) Breiðu bök þjóðfélagsins voru lífeyrisþegar sem fengu mestu skattahækkanirnar ofan á allt hitt tapið sitt. Og þá var þó flokkurinn í stjórn sem var kölluð (líklega af flestum í háði) „norræna velferðarstjórnin“ með Samfylkingunni. Að flokkurinn færi í stjórn með tveimur flokkum hægra megin við Samfylkinguna vissi því ekki á gott.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Núna er flokkurinn á mörkum útrýmingar. Líklega færa vinstrimenn sig yfir á Sósíalistaflokkinn, enda er hann eina von þeirra um að harður vinstriflokkur verði á þingi eftir kosningar. Kannski full fljótt að skrifa minningargrein um VG, en gæti styst í það. Fyrir hið pólitíska litróf er hins vegar nauðsynlegt, að alvöru vinstriafl eigi fulltrúa á þingi. Það er til þess að fá fjölbreytileika í umræðuna og ólík sjónarhorn. VG bjargaði íslenskum stjórnmálum frá því að jafnaðarmenn einir væru fulltrúar vinstrisins í lok síðustu aldar. Núna verður það mögulega Sósíalistaflokkurinn.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: