Stjórnmál
„Það hlýtur svo að teljast nauðsynlegur þáttur í endurreisn
flokksins að endurnýja í stórum stíl forystuna. Það er auðvitað augljóst
að kjósendur geta ekki treyst núverandi forystumönnum til að hrinda ofangreindum
verkefnum í framkvæmd,“ segir í nýrri Moggagrein eftir Jón Steinar
Gunnlaugsson.
Hann tekur til nauðsynleg stefnumál í þrettán liðum.
Hann segir að stefnumiðin þrettán beri að setja fram með öflugum hætti í kosningabaráttunni sem fram undan er. „Gera má ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn muni þá allt að einu gjalda fyrir brot á stefnumálum sínum undanfarin ár. Þetta myndi hins vegar gefa fyrirheit um stuðning kjósenda þegar fram í sækir.“
Greinina byrjar Jón Steinar svona:
„Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er sú að mér hefur fundist hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.
Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum sem finnast í landinu. Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn. Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum sem þeir segjast hafa?
Kosningar eru fram undan. Í ljós kemur í fylgiskönnunum að flokkurinn, sem ég og fjölmargir aðrir hafa stutt, muni gjalda afhroð. Að mínum dómi kemur ekki annað til greina en að skipta gersamlega um kúrs og byggja kosningabaráttuna á þeim stefnumálum, sem við mörg héldum að þessi flokkur ætti að standa fyrir.“