- Advertisement -

Sjallarnir vilja ekki jafnlaunavottun

„Við höfum lögfest hér séríslenskt apparat, sem engum öðrum í heiminum dettur í hug að gera.“

Diljá Mist Einarsdóttir.

Alþingi „Í dag er alþjóðlegi jafnlaunadagurinn. Markmið hans er að vekja athygli á launajafnrétti og hvetja til aðgerða til að ná jöfnum launum fyrir sömu störf. Af því tilefni ætla ég að ræða hið kostnaðarsama, áhrifalausa og séríslenska apparat jafnlaunavottun. Sérstakt hugarfóstur og arfleifð Viðreisnar í íslensku atvinnulífi,“ sagði Diljá Mist Einarsdóttir Sjálfstæðisflokki.

„Við höfum lögfest hér séríslenskt apparat, sem engum öðrum í heiminum dettur í hug að gera, sem skyldar íslensk fyrirtæki, jafnvel lítil fyrirtæki, til að undirgangast vottunarferli sem á að koma í veg fyrir launamisrétti kynjanna. Við lagasetninguna var enginn áhugi á kostnaðinum sem þessu fylgdi fyrir íslenskt atvinnulíf og lítill áhugi á árangri,“ sagði Diljá.

Hún hélt áfram:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ég hef hins vegar áhuga og ber umhyggju fyrir íslensku atvinnulífi og lagði því fram fyrirspurn fyrir nokkru um árangurinn af þessari vottun. Og viti menn, enginn marktækur munur mælist á kynbundnum launamun hjá þeim aðilum sem fá jafnlaunavottun og hinum sem gera það ekki. Það hefur reyndar dregið mjög úr kynbundnum launamun hér á undanförnum árum og áratugum. Það er jákvætt en það hefur bara ekkert með jafnlaunavottun að gera. Vottunin hefur reyndar verið kölluð láglaunavottun af gárungunum. Við höfum líka fylgst með baráttu íslenskra kvenlækna á Landspítalanum sem flettu ofan af launamisrétti þar, stofnun sem er auðvitað jafnlaunavottuð af ríkinu.“

Allt hefur sinn endi og ræða Diljár er engin undantekning þar á:

„Við Sjálfstæðismenn höfum aftur lagt fram þingmál um að jafnlaunavottun verði valkvæð dyggðaskreyting, ekki lögbundin skylda. Jafnlaunavottun er kostnaðarsamur baggi á atvinnulífinu og opinberum stofnunum sem skilar engum marktækum árangri. Stjórnmálamenn sem viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér eru menn að meiri fyrir vikið. Vonandi gerist það hér á Alþingi við meðferð málsins. Við erum öll sammála um markmiðið. Förum réttu leiðina að því.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: