- Advertisement -

Fjármálaráðherrann út í mýri

„Við sáum síðustu frétt frá Hagstofunni núna um að eignaverð hafi hækkað mjög mikið sem segir að fólk skuldar almennt miklu minna.“

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.

Stjórnmál Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra hefur sagt margt furðulegt eftir að hann stökk úr innviðaráðuneytinu og varð fjármála- og efnahagsráðherra. Hér fer svar hans, ef svar skal kalla, við fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar Flokki fólksins.

„Ég tek eftir því að háttvirtur þingmaður hefur ekki tekið það upp í sína orðræðu að í raun hafa þeir sem eiga sitt eigið húsnæði aldrei verið fleiri á Íslandi. Það gildir líka um unga fólkið í öllum aldurshópum. En það er hins vegar áhyggjuefni, og við ítrekum það í greinargerð fjárlagafrumvarpsins, að það eru tveir hópar sem augljóslega búa við talsvert lakari stöðu en allir aðrir hópar á Íslandi.“

Svo kemur þetta: „Við sáum síðustu frétt frá Hagstofunni núna um að eignaverð hafi hækkað mjög mikið sem segir að fólk skuldar almennt miklu minna.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„…nema hjá yngsta hópnum.“

Ding dong. Ef íbúðarverð hækkar lækka skuldirnar ekki við það. Bara alls ekki. Vel má vera að skuldirnar verði hlutfallslega lægri. En þær lækka ekki um eina krónu við. Að halda öðru fram er ósmekklegt.

Lesum meira eftir ráðherrann:

„Vaxtabyrðin hefur heldur ekki aukist, nema hjá yngsta hópnum, þeim hópi sem er kominn inn á húsnæðismarkaðinn. Það er hópurinn sem ég hef sagt hér að við þurfum að hafa áhyggjur af og það er þar sem við höfum verið að grípa inn í með aðgerðum í ár í fjárlagafrumvarpinu – við þurfum líka að hafa áhyggjur af þeim hópi sem þarf að komast inn á markaðinn – sem er mjög erfitt að gera meðan lánþegaskilyrði Seðlabankans eru með þeim hætti sem þau eru.“

Fjárlög eða fjárlagafrumvarp er sitt hvað. Hvort ráðherrann er að meina er óvíst með öllu.

Eitt enn, hver er lánþegaskilyrði Seðlabankans? Okurvextir og kannski eitthvað meira?

Fjármálaráðherrann hleður sem óður maður í eigin gapastokk. Ríkisstjórnin er komin að fótum fram. Framganga formanns Framsóknar er skýrt dæmi um stöðuna sem ríkisstjórnin hefur komið sér í.

Meira seinna. Af nógu er að taka.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: