Marinó G. Njálsson:
Það er kominn tími til, að almenningur eigi sama val og almenningur í nágrannalöndum okkar. Stöðugleika, lága verðbólgu, lága vexti og að hagsmunir almennings sé í forgangi.
Stjórnmál
Nýr fjármála- og efnahagsráðherra tók við embætti fyrir nokkrum mánuðum. Hann er strax búinn að kasta inn handklæðinu og lýsa yfir vanmætti sínum, að takast á við verðbólguna í landinu. Svo sem ekkert nýtt að ríkisstjórnir hafi lítið lagt til í baráttunni við verðbólgu, en ég held að enginn fjármálaráðherra hafi verið svona snöggur að gefast upp.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur augljóslega heyrt brandara um verðbólguna og ákvað að segja hann, ekki einu sinni, heldur tvisvar í Kastljósi um daginn.
„Þessar væntingar sem að búa með þjóðinni, og eru hluti af einhvern veginn DNA-vanda okkar, komandi úr gamalli hárri, miklu hærri verðbólgu. Við einhvern veginn sættum okkur við hærri verðbólgu eða hærra verðbólgustig, eða sækjumst jafnvel eftir því, heldur en margar aðrar þjóðir.“ Svona hljómuðu orð hans.
Stjórnmálamaður, sem gefst upp á viðfangsefni sínum, á að víkja fyrir einhverjum sem treystir sér í verkið. Svo lengi sem ég man eftir mér (er ári eldri en ráðherrann), þá hefur efnahagstjórn Íslands verið í ólestri. Raunar skelfileg. Almenningur og fyrirtæki hafa kvartað frá því á 8. áratugnum yfir getuleysi ríkisstjórna og Seðlabanka Íslands til að halda hér stöðugleika hóflegs verðlags, gengishreyfinga og vaxta.
Á þessum tíma hafa tveir stjórnamálaflokkar verið hvað lengst í ríkisstjórn, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Ef þol fyrir óstjórn er í erfðaefni eihverra, þá er það í erfðaefni leiðtoga þessara tveggja flokka. Í hvert sinn sem eitthvað bjátar á í efnahagsmálum, þá fara leiðtogarnir í felur og framselja efnahagsákvarðanir til bestu vinna sinna. Sambandið, Kolkrabbinn, útrásarvíkingar, einkavæðing bankanna, S-hópurinn og núna síðustu ár fengu sumir björgun eftir hrun og eignuðust Ísland. Hér á landi hefur sá frekasti alltaf ráðið efnahagsstefnunni.
Almenningur hefur þurft að líða fyrir þetta einkavinarugl leiðtoga Sjálfstæðisflokks og Framsóknar svo lengi sem ég man eftir mér. Hagsmunir bestu vina „aðal“ skipta meira máli, en lífsbarátta almennings. Á þessari öld gekk svo Seðlabankinn í lið með bestu vinum „aðal“ og hefur gjörsamlega misst sjónar af markmiðum sínum.
Ef einhverjir eru komnir með háa verðbólgu í erfðamengi sitt, þá eru það þessir aðilar, ekki almenningur. Ekki heldur almennir fyrirtækjaeigendur, sem þurfa að stýra fyrirtækjum sínum í gegn um ólgusjó efnahagslegrar óreiðu. Einu sem eru varðir fyrir öllu eru fjármagnseigendur, enda var verðtryggingunni komið á til að koma í veg fyrir að þeir tækju ábyrgð.
Stærsta ástæða efnahagslegrar óreiðu á Íslandi, er verðtryggingin, því hún sér til þess að áfallið lendir á almenningi, en ekki fjármagnseigendum og bönkunum. Þessir aðilar geta hagað sér eins og þeim sýnist, því reikningurinn lendir hjá almenningi. Þessir aðila vilja háa verðbólgu, því þannig herða þeir tökin á almenningi.
En nú vil ég beina orðum mínum til fjármála- og efnahagsráðherra: Þetta átti kannski að vera brandari, en að segja hann tvisvar á stuttum tíma sýnir að þú trúir þessu og ert sem stjórnmálamaður búinn að gefast upp á viðfangsefni þínu. Það er algengt að fólk fái einni stöðuhækkun of mikið. Kannski henti það þig. Almenningur sættir sig ekki við háa verðbólgu, en hann á ekkert val. Almenningur sættir sig ekki við háa vexti, en hann á ekkert val. Almenningur sættir sig ekki við hagsmunagæslu stjórnmálamanna fyrir bestu vini sína, en hann á ekkert val.
Það er kominn tími til, að almenningur eigi sama val og almenningur í nágrannalöndum okkar. Stöðugleika, lága verðbólgu, lága vexti og að hagsmunir almennings sé í forgangi.
Grenin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.