- Advertisement -

Vg gætir hagsmuna örfárra auðmanna

Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins, skrifar:

Stjórnmál Ályktanir Vg um sjávarútvegsmál sem samþykktar voru nú um helgina eru ekki upp á marga fiska. Samþykkt var að endurskoða strandveiðar með það fyrir augum að dreifa þeim og efla smærri sjávarpláss en ekki var orð um að tryggja 48 daga eða að efla kerfið.

Þessi áhersla á dreifingu kom nokkuð á óvart þar sem afskipti bæði Svandísar og ekki síður Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir í stóli matvælaráðherra af útdeilingu byggðakvótans hafa verið sama marki brenndar þ.e. að koma honum öllum nær óskiptum til stórútgerðarinnar.

Afskipti Bjarkeyjar hér á Króknum voru þau að hafna tillögu sveitarfélagsins um að dreifa honum að mestu á smábátanna og koma honum öllum á Kaupfélag Skagfirðinga.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ekki var heldur minnst á að tryggja að landsmenn verði jafnir að því að nýta sameiginlega fiskveiðiauðlind – Nei nei flokkurinn er enn að gæta hagsmuna örfárra auðmanna.

Furðulegt var að sjá að Vg sem opnaði fyrir togveiðar upp í fjöru í fyrra fyrir stóra togara, skuli nú leggja áherslu á sérstaka vernd á 30% af hafsvæða fyrir árið 2030!

Hér á eftir fer ályktun flokksráðs Vinsri grænna um sjávarútvegsmál:

Ályktun um sjávarútvegsmál

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 leggur ríka áherslu á sanngirni og jafnræði í nýtingu auðlinda þjóðarinnar. Í því ljósi telur fundurinn mikilvægt að hækka veiðigjald á tilgreindar uppsjávartegundir til að tryggja að greitt sé sanngjarnt gjald fyrir afnot sameiginlegra auðlinda.

Fundurinn leggur áherslu á nauðsyn aukins gagnsæis og upplýsingaöflunar vegna tengdra aðila í sjávarútvegi.

Tryggja þarf sanngirni og nýtingu aflaheimilda með nýju byggðakvótakerfi. Fundurinn leggur til að úthlutanir verði endurskoðaðar til að styrkja brothættar byggðir og byggðarlög sem hafa orðið fyrir áföllum vegna varanlegs aflabrests og framsals aflaheimilda.

Endurskoða þarf lög um strandveiðar og tryggja að afli dreifist með sanngjörnum hætti um landið. Markmið strandveiða er, og á að vera, að styrkja smærri sjávarpláss og glæða lífi hafnir um land allt.

Flokksráðsfundurinn kallar eftir því að matvælaráðherra leggi fram heildstæða sjávarútvegsstefnu til að tryggja hagkvæma og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Fundurinn kallar einnig eftir því að orkuskiptum í sjávarútvegi verði flýtt til muna sem og í ferjum innanlands eða til og frá landinu.

Mikilvægt er að lagt verði fram frumvarp um verndarsvæði í hafi sem muni styrkja lagastoð fyrir verndun hafsvæða með það að markmiði að vernda 30% hafsvæða fyrir árið 2030.

Endurskoða þarf stefnu stjórnvalda í málefnum hafsins en hún hefur ekki verið endurskoðuð síðan 2004. Endurskoðuð stefna þarf að taka tillit til nýrra áskorana og tryggja að við stöndum vörð um auðlindir hafsins og nýtingu hafsvæða á sem bestan hátt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: