- Advertisement -

Vantar skýringar frá Hagstofu

Býð mig fram í verkið sé vilji fyrir hendi að fjármagna vinnuna.

Marinó G. Njálsson.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Fargjöld til útlanda hækkuðu vísitölu neysluverðs og verðbólguna. Hækkun þeirra um 16,5% hafði áhrif til hækkunar á vísitölunni um 0,34%.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig þessi liður er mældur. Mér vitanlega er þetta byggt á því, að skoðað er framboð á ferðum til einhverra staða og hvað sæti kostar á hverjum tíma til þessara staða. Einhverju sinni skýrði fulltrúi Hagstofu þetta út á fundi, sem ég á einhvers staðar glærur frá, og var ég engu nær um hvort um raunverulega hækkun var að ræða, hver sveigjanleikinn var varðandi val á flugi, hjá hvaða flugfélögum verð væri skoðað eða hvort gert var ráð fyrir að einstaklingur keypti flugsæti á kjánalega háu verði eða hætti við kaupin vegna þess, að verðið í boði var kjánalega hátt. Enda skiptir það ekki máli fyrir verðmælingar hvort vara sé keypt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Enginn er neyddur…

Eins og ég skil hlutina, þá breytist verð á flugfargjöldum eftir því hve mörg sæti hafa verið seld. Eftir því sem fleiri sæti eru seld, þá hækkar verðið. En varan er ekki að hækka í verði, þegar fleiri sæti seljast. Þetta er álíka ólíkt og þegar fólk neyðist til að kaupa minni pakkningu af morgunkorni (á hlutfallslega hærra verði), þegar stærri og hlutfallslega hagstæðari pakkningarnar eru ekki til. Verðið hvorki hækkaði né lækkaði við þetta. Það stóð í stað. Að bara séu til dýrari sæti með meira fótaplássi segir ekkert um það að flugfar hafi hækkað. Búið var að selja flugsæti af lakari gæðum og þau sem eftir voru, voru ekki sama varan. Ódýrari flugsætin eru ekki sama varan og dýrari flugsætin þó bæði teljist í almennu farrými.

En ég held að Hagstofan þurfi að skýra út fyrir almenningi hvernig þessi mæling fer fram. Enginn er neyddur til að kaupa litla, óhagstæðari pakkningu af morgunkorni og enginn er neyddur til að kaupa dýrara flugsæti. Ég er nokkuð viss um að Icelandair og Play telja ódýrari sætin vera aðra vöru en dýru sætin. Alveg eins og minni, óhagstæða pakkningin af morgunkorni er önnur vara en sú stærri og hagstæðari.

Þetta er ekki eini liðurinn í vísitölu neysluverð sem þarf að skoða og skýra út hvernig er mæld. Það þarf að rýna alla liði vísitölu neysluverðs og fá á hreint hvort mæling þeirra sýni réttar breytingar á vöruliðum milli mánaða. Býð mig fram í verkið sé vilji fyrir hendi að fjármagna vinnuna.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: