Samfélag
Ragnar Gunnarsson, Raggi Sót söngvari Skriðjökla, skrifar um bílakaup Höllu Tómasdóttur verðandi forseta. Raggi þekkir vel til bílaviðskipta. Faðir hans, Gunni Sót, var áberandi bílasali í mörg ár. Hann lokaði mörgum dílum.
Raggi skrifaði þetta:
„Ekki ætla ég að fetta fingur út í kaup verðandi forseta, Höllu Tómasdóttur, á bifreið fyrir fjölskylduna, raunar hið besta mál svo ekki sé meira sagt.
Það gildir hins vegar öðru máli þegar bílaumboðið Brimborg með Egil Jóhannsson í fararbroddi sjá sig knúinn til að nota umrædd kaup í auglýsingaskini.
Það vekur líka athygli mína að Agli og Höllu ber ekki saman um þau kjör sem verðandi forseti fékk í þessum viðskiptum. Egill vill meina að Halla hafi notið „sérkjara“, sem góður og dyggur viðskiptavinur Brimborgar í gegn um tíðina. Halla segir hins vegar að hún hafi fengið „staðgreiðsluafslátt.“!!
Það vill svo til að ég er nokkuð kunnugur því hvernig kaupin gerast á eyrinni þegar kemur að bílaviðskiptum. Langflestir bílar sem seldir eru í dag, notaðir sem nýir, eru staðgreiddir með peningum, ef tekið er lán á bílinn er það fjármagnað af fyrirtækjum sem gefa sig út fyrir slíkt. Stundum er gamall bíll kaupanda tekin upp í kaupverðið sem greiðsla, oftast á hrakvirði þegar um kaup á nýum bíl er að ræða.
Það er því ekki óeðlilegt að það vakni spurningar hjá þjóðinni hver er að segja satt, Egill eða Halla? Hér á eftir koma nokkrar.
1. Hvað marga nýja bíla hefur Halla Tómasdóttir keypt af Brimborg til að komast í flokk með vildarviðskiptavinum sem njóta „sérkjara“ hjá fyrirtækinu?
2. Hversu hár var staðgreiðsluafslátturinn í % sem Halla fékk í umræddum viðskiptum?
3. Er Halla til í að sýna þjóðinni kaupsamninginn við Brimborg, og þar með taka af allan vafa um að viðskiptin hafi verið á eðlilegum nótum?
Þegar Egill er spurður út í hvort hann þekki Höllu Tómasdóttur persónulega svarar hann,
„Já, ég hef svona þekkt þau í mörg ár, en bara sem kunningjar,“ svarar hann. „Ætli ég hafi ekki fyrst kynnst henni þegar hún var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs á sínum tíma [2005-2007]. Svo höfum við bara þekkst svona í gegnum árin.“
Ég velti því fyrir mér eftir að hafa séð gestalista vina og vandamanna Höllu í veislu sem haldin verður í Alþingishúsinu við embættistökuna í byrjun ágúst, hvort öllum hennar „kunningjum“ verður boðið, eða bara Agli Jóhannssyni, sem er efstur á lista?
Smá skítalykt af málinu.“